Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tölvuþrjótar stela myndum Íslendinga

03.08.2016 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Gervimenn með íslensk nöfn á Facebook halda áfram að herja á Íslendinga. Nú hafa þessir gervimenn tekið upp á því að stela ekki einungis nöfnum landsmanna heldur auk þess myndum þeirra. Ekki verður betur séð en að tölvuþrjótar herji nú sérstaklega á Íslendinga á Facebook.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, er ein þeirra sem hefur lent í því að myndir hennar hafi verið notaðar af gervimönnum. Hún segir í samtali við fréttastofu að það sé ónotaleg tilfinning. „Það er vissulega óþægilegt. Ég hef tilkynnt þetta til Facebook og þeir segja að það sé ekkert við þetta sem brýtur í bága við skilmála þeirra. Facebook hugsar bara að fólk geti heitið sama nafninu,“ segir Líf.

Henni finnst þó verst að tölvuþrjótar séu að nota myndir af börnunum hennar. „Það er sérstaklega óþægilegt að þeir séu að nota myndir af börnunum mínum. Skítt með mig en þegar þeir setja inn fjölskyldumynd þá er það verra.“ Hún hvetur fólk til að tilkynna gervifólk til Facebook og vera meira á varðbergi við að samþykkja slíkt fólk.

Pálmi Gestsson leikari og Helgi Seljan eru meðal þeirra sem hafa lent í því að myndir af þeim voru notaðar af gervimönnum. Sá sem stal mynd af Pálma gekk þá undir íslensku kvenmannsnafni.

 

Gervimenn stela myndum á Facebook
 Mynd: Facebook

Engin augljós leið er til þess að komast að því hvort myndir viðkomandi hafi verið teknar ófrjálsri hendi. Myndaleit Google virkar til að mynda ekki þar sem Facebook-myndum er ekki flett upp.

Athygli vekur að þessi gervimenn setja í mörgum tilvikum innlegg á Facebook-síðu fólks sem hefur samþykkt vinabeiðni þeirra. Algengt er að slík innlegg séu auglýsingar á ódýrum sólgleraugum. Sé farið inn á síðuna kemur í ljós að um er að ræða sölusíðu fyrir eftirlíkingum af Ray-Ban gleraugum og vefsíðan skráð í Kína. Því verður ekki betur séð en markmiðið með gervimönnunum sé að dreifa ruslpóst á Facebook. 

 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV