
Tölvuleikur með nasistum leyfður í Þýskalandi
Umræddur leikur, Wolfenstein: Youngblood, kemur út 26. júlí. Í fyrri Wolfenstein-leikjum hafa hakakrossar og önnur einkennismerki nasista verið fjarlægð, Hitler kallaður kanslari en ekki „Führer“ eða leiðtogi og yfirvaraskegg hans þurrkað út.
Leikurinn gerist árið 1980 í heimi þar sem nasistar sigruðu í síðari heimsstyrjöldinni. Hann fjallar um tvíbura sem leita föður síns.
Þrátt fyrir að banninu hafi verið aflétt stendur þýskum neytendum til boða að kaupa hann óritskoðaðan, eða útgáfu þar sem engin nasistatákn eru sjáanleg. Framleiðandinn Bethesda gerði ritskoðaða útgáfu þar sem óvíst var að banninu yrði aflétt áður en leikurinn kom út.
Þýsk lög banna opinbera birtingu hakakrossins og nasistakveðjur nema um fræðsluefni eða listaverk sé að ræða.
Þýska tölvuleikjaeftirlitið mun héðan af meta hvern og einn tölvuleik og hvort hann uppfylli skilyrði þess um notkun nasistatákna í listrænum tilgangi. Sama fyrirkomulag er á eftirliti með kvikmyndum. Þetta þýðir því ekki að aðrir tölvuleikir í Wolfenstein-seríunni verði gefnir út óritskoðaðir ef þeir uppfylla ekki skilyrði eftirlitsins.