Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tölvuárásin á Maersk árás á danskt samfélag

28.06.2017 - 05:32
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Tölvuárásin á danska skipafélagið Maersk í gær er árás á Danmörku sem samfélag. Þetta segir Brian Mikkelsen, efnahags- og viðskiptaráðherra Danmerkur. „Fyrir mér er þetta nánast efnahagslegt hryðjuverk, vegna þess að þetta getur sett stöndug fyrirtæki á hliðina og á endanum kostað mörg störf ef ekkert er að gert,“ segir Mikkelsen.

Tölvukerfi Maersk lamaðist í árásinni. Mikkelsen segir í samtali við danska ríkisútvarpið að dönsk stjórnvöld taki árásina grafalvarlega og séu þegar byrjuð að vinna að leiðum til að koma í veg fyrir fleiri slíkar í framtíðinni.

Árásin í gær hafði áhrif á tölvur stofnana, fyrirtækja og einstaklinga víðs vegar um heim. Ásamt Maersk urði rússneska olíufélagið Rosneft og bandaríski lyfjarisinn Merch fyrir barðinu á henni, og þá varð Úkraína sérstaklega illa úti – þar í landi raskaðist starfsemi margra banka, fjármálastofnana og fyrirtækja.

Gögn á tölvum sem smituðust voru tekin í gíslingu, þau dulkóðuð og þrjótarnir buðu eigendunum að greiða lausnargjald fyrir að endurheimta þau – lausnargjald sem sérfræðingar segja alls óvíst að skili nokkru nema léttari pyngju. Tölvuvírusinn var að þessu leyti mjög svipaður og sá sem herjaði á tölvur um heim allan í síðasta mánuði og gekk undir heitinu Wannacry.

Mikkelsen segir deginum ljósara að töluvárásir sem þessar séu risavaxin ógn, þeim þurfi að verjast og til þess geti þurft að ganga langt. „Árásin á Maersk er til merkis um að vandinn sé að aukast. Það hafa áður verið gerðar svona árásir – sumum hefur fólk vitað af, öðrum ekki. Þetta er ekki eitthvað sem bara fyrirtæki þurfa að taka alvarlega, heldur er þetta líka árás á Danmörku sem samféag af því að þetta er eitt af okkar fyrirtækjum.“