Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tölvuárás á RÚV litin alvarlegum augum

15.05.2018 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tölvuárás var gerð á vef Ríkisútvarpsins í gærkvöld og var brugðist við með því að loka fyrir alla umferð inn á vefinn.  Þetta er önnur árásin á síðuna á stuttum tíma. Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla, segir RÚV taka árásina mjög alvarlega. 

Vefur RÚV niðri í tæpar 2 klukkustundir í gærkvöld. Þetta er önnur árásin á skömmum tíma en í þetta sinn var þetta svo kölluð DDoS árás sem snýst um að framkalla þúsundir, eða jafnvel tugþúsundir beiðna á vefsíðu á hverri sekúndu. Beiðnirnar komu alls staðar að úr heiminum.

Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla, segir árásir sem þessa alltaf alvarlegar. „Þetta var afskaplega stór árás og hún varði lengi, lengur en við höfum í raun og veru séð áður. Viðbrögð okkar voru að beina umferð frá ruv.is til að koma í veg fyrir skaða og verja okkar notendur þannig að markmið árásarinnar var að láta vefinn hrynja. Það tókst ekki, heldur voru viðbrögð af okkar hálfu að beina umferðinni annað.“

Baldvin segir að RÚV taki árásina alvarlega og að öll öryggiskerfi RÚV verði skoðuð í framhaldinu. Erfitt sé að komast að því hver hafi verið að verki. 

„Svona árás beinist alltaf að tiltekinni vefsíðu. Þannig að þessi árás beindist bara að RÚV en það eru hins vegar á hverjum degi eru margar svona árásir gerðar um allan heim og bara í gær og fyrradag voru til dæmis dönsku járnbrautirnar, vefsíðan hjá þeim lagðist niður út af sambærilegri árás.“