Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Töluvert tjón miðað við fjölda verkefna“

15.02.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót
Ekki er vitað hversu mikið tjón varð í aftakaveðrinu sem gekk yfir landið í gær en ljóst að það er mikið, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum. Það sama segir formaður Bændasamtakanna. Óvissustig er enn í gildi vegna óveðursins.

Mikið óveður gekk yfir land allt í gær með tilheyrandi tjóni. Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir ljóst að skemmdir hafi orðið mjög víða.

„Við höfum ekki neinar tölur um upphæðir eða svoleiðis en ég hugsa að það sé töluvert tjón miðað við fjölda verkefna hjá björgunarsveitum og viðbragðsaðilum,“ segir Rögnvaldur.

Enn að glíma við afleiðingar

Hvað voru verkefnin mörg í heild?

„Þetta eru rúmlega 800 verkefni sem var farið í, sem var allur skalinn, frá því að smáhlutir voru að fjúka yfir í þök og skemmdir á bílum. Þannig að þetta eru töluverðar upphæðir býst ég við.“

Að hverju miðar ykkar vinna daginn eftir þennan hvell?

„Það er að gera upp verkefnið. Þetta er ekki alveg búið. Það er ennþá verið að glíma við rafmagnsleysi á Suðurlandi sem RARIK er að vinna í að leysa úr. Og við erum ekki ennþá búin að taka óvissustigið af vegna veðursins, allavega á meðan við erum enn að glíma við afleiðingar þess.“

Voru landsmenn sæmilega undirbúnir í gær?

„Já ég held það. Bæði voru viðbragðsaðilar mjög vel undirbúnir og held ég almenningur líka, sem tók þátt í þessu með okkur. Þannig að það er held ég góður skilningur á því að þetta hafi verið verkefni sem við þurftum öll að tækla saman, og ég held að það hafi gengið mjög vel,“ segir Rögnvaldur.
 

Bændur skoði tryggingar

Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtakanna, segir að bændur hafi víða farið illa út úr óveðrinu.

„Það varð talsvert tjón hjá bændum. Við höfum svo sem ekki heildarsýn yfir það ennþá, þetta er heldur ekki endanlega komið í ljós ennþá, hvernig tjónin hafa orðið. En við vitum að það voru útihús sem skemmdust, þakplötur að fjúka og náttúrulega gróðurhúsin. Þannig að þetta var talsvert tjón,“ segir Guðrún.

Hefur þú einhverja hugmynd um hvort bændur séu almennt tryggðir fyrir svona tjóni?

„Nei ég hef ekki yfirsýn yfir það en vil endilega nota tækifærið til þess að hvetja fólk til þess að fara vel yfir tryggingarnar sínar. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli, sérstaklega núna þegar við erum að sjá svona veður koma aftur og aftur.“