Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Töluverð umferð um flugvöllinn á nóttunni

02.11.2019 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Síðustu þrjá mánuði var yfirgnæfandi meirihluti þeirra flugvéla sem lentu eða tóku á loft frá Reykjavíkurflugvelli að nóttu til í sjúkra- eða björgunarflugi. Nærri 80 lendingar og flugtök utan hefðbundins afgreiðslutíma á vellinum voru skráð í kerfi Isavia og tilkynnt til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á þessu tímabili. Flugvöllurinn er lokaður fyrir flugumferð á nóttunni, með ákveðnum undantekningum.

Ekki var hægt að nota Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll sökum hálku á mánudagsmorgun þegar hættuástandi var lýst yfir vegna lendingar farþegavélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, sagði í svari til fréttastofu að það væri alltaf flugstjórans að ákveða hvar hann lendi flugvélinni miðað við uppgefin skilyrði. Reykjavíkurflugvöllur sé opnaður sérstaklega, sé þess óskað, fyrir til dæmis vélar í neyð, sjúkraflug og björgunarflug. Slíkar flugferðir eru á undanþágu frá starfsleyfisskilyrðum fyrir Reykjavíkurflugvöll. 

Ekki haldin skrá yfir hvers konar flugvélar fara um völlinn

Í framhaldinu spurði Fréttastofa Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur um hversu margar flugvélar hafi átt leið um flugvöllinn utan hefðbundins afgreiðslutíma síðustu þrjá mánuði. Einnig var spurt hvers konar flugvélar það hafi verið. 

Í svarinu kemur fram að 77 tilkynningar bárust Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur úr kerfi Isavia frá 1.ágúst um flughreyfingar á Reykjavíkurflugvelli á þeim tíma sem þar er lokað fyrir almenna flugumferð. Þetta kemur fram í svari frá heilbrigðiseftirlitinu við fyrirspurn frá fréttastofu. Flugvöllurinn er lokaður frá klukkan ellefu á kvöldin til klukkan sjö á morgnana og til klukkan átta um helgar vegna hávaðamengunar.  

Í svari frá heilbrigðiseftirlitinu kemur fram að ekki sé haldin sérstök skrá yfir hvers konar flugumferð fari um völlinn á nóttunni. Hinsvegar kannist starfsfólk orðið við skráningarmerki fyrir til dæmis Landhelgisgæsluna og Mýflug sem sinnir sjúkraflugi. Í svarinu segir jafnframt að hver lending teljist ein hreyfing og sama gildi um flugtak, þannig að flugvél sem bæði lendir og tekur á loft teljist sem tvær tilkynningar.  

Meirihlutinn á vegum Landhelgisgæslu og Mýflugs

Frá fyrsta ágúst hafi yfirgnæfandi hluti flughreyfinga verið á vegum Landhelgisgæslunnar og Mýflugs. Í svarinu kemur jafnframt fram að ef tilkynnt sé um flug sem starfsfólk heilbrigðiseftirlitsins þekki ekki geti það sent fyrirspurn um það. Ekki sé regla að það sé gert en í þeim tilfellum sem spurst hafi verið fyrir um ákveðin flug hafi komið í ljós að þar hafi verið líffæraflutningar. „Starfsmönnum í flugumsjón á að sjálfsögðu að vera kunnugt um þessi ákvæði og því er treyst að ákvæðunum sé fylgt og heimili einungis flugumferð sem fellur undir undanþáguákvæði,“ segir í svarinu. 

Sigrún sagði í fréttum í fyrr í vikunni að við gerð flugáætlunar skrái viðkomandi flugfélög varaflugvöll fyrir viðkomandi flugvélar í áætlun hennar, en flugvöllur fái ekki upplýsingar um það fyrr en að beiðni kemur frá flugumsjón í Keflavík eða frá flugstjórnarmiðstöðinni. „Um leið og upplýsingar berast um komu væntanlegrar flugvélar hefst tilheyrandi undirbúningur á viðkomandi flugvelli.“