Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Töluverð smáskjálftavirkni við Grindavík í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Jarðskjálftavirkni heldur áfram að mælast í grennd við Grindavík. Frá miðnætti hafa mælst um 30 skjálftar á svæðinu, flestir undir 2 að stærð, að því er fram kemur í athugasemd jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands. Nóttin einkenndist af smáskjálftavirkni.

Í gær mældust yfir 60 skjálftar á svæðinu og voru þeir einnig flestir undir 2 að stærð. Í fyrrakvöld mældist skjálfti að stærð 3,3 á svæðinu og hefur enginn svo stór fylgt í kjölfarið. Landrisið við fjallið Þorbjörn mælist nú fimm sentímetrar frá því að land tók að rísa 20. janúar. Með landrisi má búast við áframhaldandi skjálftavirkni, en enn er líklegast að virkninni ljúki án eldsumbrota.

Í síðustu viku, 27. janúar - 2. febrúar, mældust yfir 1.300 skjálftar á mælum Veðurstofunnar á landinu. Það er töluvert meira en í vikunni á undan þegar þeir voru 350. Alls mældust tólf skjálftar yfir 3 í vikunni, allir í nágrenni Grindavíkur. Sá stærsti var 4,3 þann 31. janúar.