Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tólf línur tákna stöðu sólar í Hamraborg

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV

Tólf línur tákna stöðu sólar í Hamraborg

05.07.2019 - 15:04

Höfundar

Vegglistaverkið „Sólarslóð / Sun Drive“ var afhjúpað á Hálsatorgi í Hamraborg í Kópavogi í hádeginu í dag. Með verkinu vill danski listamaðurinn Theresa Himmer sýna gang sólarinnar yfir árið.

Kópavogsbær bauð vegfarendum sem nutu sólar á Hálsatorgi upp á pylsur, gos og súkkulaði þegar vegglistaverkið var afhjúpað formlega.

Himmer hefur búið hér á landi og sýnt og skapað list sína hér. Hennar þekktustu verk voru pallíettu fossar og jöklar sem endurvörpuðu sólargeislum af húsgöflum í miðborg Reykjavíkur fyrir nokkrum árum. Listaverkið í Kópavogi blasir við vegfarendum sem eiga leið um háborg Kópavogs gangandi eða akandi. Það er á bogadregnum vegg og setur líflegan svip á umhverfið.

Himmer heldur áfram að vinna með sólina í þessu verki. Hún er búin að draga tólf línur á vegginn sem tákna hæstu stöðu sólarinnar á 21. degi hvers mánaðar. Þegar sólin skín glitrar málningin á veggnum.

„Innblásturinn kemur svolítið frá mörgum hliðum. Að hluta til kemur hann úr rannsóknarvinnu sem ég gerði fyrir sýninguna Innra, með og á milli sem var á Gerðarsafni árið 2017 sem ég tók þátt í ásamt æðislegum kollegum,“ segir Theresa Himmer.

„Og þar gerði ég mikla rannsókn í kringum Gerði Helgadóttur og umhverfi safnsins. Þannig að það koma rosa margar pælingar frá þessum sérstaka stað; Umferðinni sem skilgreinir þetta torg – sem flæðir undir og yfir – líka þetta að tengja einhverja stærri geometríu í daglegar hreyfingar okkar.“

Himmer tekur undir að sólarljósið og endurvarp ljóss sé einskonar þema í verkum hennar. Það hafi líka verið í pallíettu-verkum hennar. „Það er þema að vera í díalog við það sem gerist umhverfis verkið,“ segir hún.

Listaverkið sem prýðir Hálsatorg var styrkt af lista- og menningarráði Kópavogs. Ákvörðun var tekin um uppsetningu verksins síðasta haust. Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, segir verkið hafa mikla listræna þýðingu fyrir Kópavogsbæ og það „mun verða eitt af kennileitum bæjarins“.