Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tólf hafa látist úr dularfullum sjúkdómi

03.05.2017 - 02:50
epaselect epa04332725 A photograph made available 27 July 2014 shows Liberian health workers in protective gear on the way to bury a woman who died of the Ebola virus from the isolation unit in Foya, Lofa County, Liberia, 02 July 2014. Over 660 people
 Mynd: EPA
Torkennilegur sjúkdómur sem ekki hefur enn tekist að greina hefur orðið tólf manns að aldurtila í Líberíu á síðustu tíu dögum. Sérfræðingar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, WHO, hafa staðfest að ekki sé um ebólu-sýkingu að ræða, þótt einkennin séu svipuð um margt. WHO hefur einnig útilokað lassa-vírusinn sem dánarorsök, en hann er landlæg plága á þessum slóðum. Allir hinna látnu hafa bein eða óbein tengsl við jarðarför trúarleiðtoga í Sinoe-héraði í suðurhluta landsins.

Alls hafa verið staðfest 25 tilfelli af þessum skæða sjúkdómi, sem nú hefur borist til höfuðborgarinnar Monróvíu, með manni sem þangað kom frá Sinoe. Talsmaður heilbrigðisyfirvalda staðfestir að sá hafi sýnt sömu einkenni og sveitungar hans í Sinoe áður en hann lést á sjúkrahúsi í höfuðstaðnum. Skömmu síðar veiktist unnusta mannsins; sýndi sömu einkenni og lést einnig.

Sýni hafa verið tekin og send á rannsóknastofu í Atlanta í Bandaríkjunum, þar sem fyrri tilraunir til greiningar reyndust árangurslausar. Talsmaður WHO segir gagna- og sýnasöfnun einnig í gangi í Sinoe. Einkum geri menn sér vonir um að finna tengsl við bæði mat og drykki sem í boði voru í jarðarförinni, sem allir hinna smituðu tengjast. Helstu sjúkdómseinkennin eru hiti, uppköst, höfuðverkur og niðurgangur. Hefur þetta vakið ugg meðal heimafólks, en mannskæður ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku er því enn í fersku minni. Hann gaus upp í desember 2013 og lagði ríflega 11.000 manns í gröfina, þar af nær 5.000 í Líberíu. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV