Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tólf ákærðir vegna tölvuárása á Demókrata

epa06886201 US Deputy Attorney General Rod Rosenstein announces that the Justice Department is indicting 12 Russian military officers for hacking Democratic emails during the 2016 presidential election at the Justice Department in Washington, DC, USA, 13
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dómsmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa ákært tólf Rússa fyrir árásir á gagnabanka og tölvukerfi háttsettra Demókrata í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna 2016. Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, segir njósnarana hafa beitt spilliforritum og stundað vefveiðar (e: phishing) við þessa iðju sína.

Einnig hafi þeir stolið gögnum um allt að hálfa milljón kjósenda af vefsvæði yfirkjörstjórna í nokkrum ríkjum og freistað þess að brjótast inn í tölvukerfi fjölmargra opinberra embætta og embættismanna, svo það helsta sé nefnt.

„Við vitum að markmið þeirra var að hafa áhrif á kosningarnar," sagði Rosenstein á fréttamannafundi, og fullyrti að tólfmenningarnir væru allir á mála hjá leyniþjónustu rússneska hersins, GRU. Ákærurnar sem birtar voru vestra í dag eru fyrstu opinberu skjölin, þar sem rússnesk yfirvöld eru ásökuð um það berum orðum að hafa skipt sér af kosningunum fyrir tveimur árum.

Rússneska utanríkisráðuneytið hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem þessum ásökunum er vísað á bug. Í yfirlýsingunni segir engin sönnunargögn fyrir því að mennirnir tengist rússneskri leyniþjónustu, og heldur ekki fyrir því að þeir hafi framið þá glæpi sem þeir eru ákærðir fyrir. Ásakanir bandarískra dómsmálayfirvalda, segir utanríkisráðuneytið í Kreml, eru innistæðulaus samtíningur af samsæriskenningum.

Forsetar stórveldanna, þeir Donald Trump og Vladimír Pútín, hittast á leiðtogafundi í Helsinki á mánudag.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV