Töldu björninn í 100 til 200 metra fjarlægð

10.07.2018 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - mynd úr safni
Franskir veiðimenn sem töldu sig hafa séð hvítabjörn á Melrakksléttu voru mjög óttaslegnir þegar þeir komu til Raufarhafnar í gærkvöld. Íbúi á Raufarhöfn segir heimamenn þar frekar spennta yfir atburðum gærdagsins en óttaslegna. Áfram verður leitað að birninum í dag.

Þrír franskir silungaveiðimenn voru að veiða í Hraunhafnarvatni í gær þegar þeir töldu sig sjá þar hvítabjörn. Eftir að hafa tilkynnt það til lögreglu drifu þeir sig á Raufarhöfn þar sem þeir höfðu bækistöðvar, en þangað eru innan við tíu kílómetrar frá vatninu.

Fannst björninn vera í 100 til 200 metra fjarlægð

Angela Agnarsdóttir, eigandi AG þjálfunar á Raufarhöfn sem rekur tjaldstæðið, segir að mönnunum hafi verið mjög brugðið þegar þeir komu þangað. „Já, þeir komu allavega frekar skjálfandi fannst mér. En það sem hann sagði okkur var að þeir hefðu séð ísbjörninn, að honum fannst rétt við sig, ég held að hann hafi talað um einhverja 100 eða 200 metra. Og það hafi bara verið öllu hent upp á þakið á bílnum og brunað í burtu.“ 

Mikil upplifun þegar þyrlan lenti

Og það hafi orðið uppi fótur og fit á tjaldstæðinu þegar þyrla Landhelgisgæslunnar lenti þar í gærkvöld, en tjaldstæðið er fullt af tjöldum og húsbílum. „Það vor allir komnir út á tjaldstæði. Þetta var bara mikil upplifun fyrir fólk,“ segir Angela.

Fólk frekar spennt en óttaslegið

Hún segir fólk ekki óttast það að sofa í tjöldunum vitandi það að hvítabjörn gæti verið á ferðinni og engir hafi yfirgefið tjaldstæðið þess vegna. Það sama eigi við um íbúa á Raufarhöfn, það sé enginn ótti í fólki, frekar spenningur. „Ég er búin að fá gesti hingað til mín í morgun á tjaldstæðinu til að fá fréttir um hvað er að gerast. Hvort hann væri fundinn eða hvað. Það er fólk sem ætlar að fara núna út á Sléttu, ætlar að keyra fyrir Sléttuna, þó svo að björninn sé þarna. Þau eru bara spennt frekar en hrædd.“ 

Leit haldið áfram í dag

Lögreglan á Norðurlandi eystra ákvað í morgun að óska eftir því að þyrla Landhelgisgæslunnar flygi aftur yfir svæðið sem tilkynnt var um hvítabjörn í gær. Það sé gert í öryggisskyni en engin önnur tilkynning, en sú sem kom í gær, hafi borist lögreglu um björninn.