Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Töldu 706 seli við Íslands strendur

28.07.2014 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Árleg selatalning fór fram á Vatnsnesi og Heggstaðanesi í gær. Alls sáust 706 selir á um 100 kílómetra strandlengju sem starfsmenn Selaseturs Íslands og sjálfboðaliðar þræddu á einum degi. Þetta var í áttunda sinn sem selatalning fer fram en hún byggir helst á þátttöku sjálfboðaliða.

Sandra Granquist líffræðingur sagði talninguna hafa verið fjölmenna í ár, þátttakendur hafi mætt eldsnemma að morgni reiðubúnir til starfa. „Síðan göngum við allt Vatnsnesið og Heggstaðanesið og teljum sel og eftir á koma allir til okkar, skila niðurstöðum og fá kaffi og kleinur,“ segir hún. 

Þátttakendur skrá samviskusamlega hjá sér tölur og skila af sér til rannsakenda sem taka saman upplýsingarnar. „Niðurstöðurnar eru komnar, við töldum 706 í ár sem er mjög svipað og í fyrra, við töldum 705-707 í fyrr þannig að þetta er svona svipað og hefur verið undanfarin 3 ár,“ segir hún. 

Talningin gegnir mikilvægu hlutverki í vísindalegu samhengi að sögn Söndru. „Þessar tölur sem við fáum út úr þessu gefa okkur vísbendingu um hvað það eru margir selir á þessu svæði, hvar þeir eru, hvort það finnist ný látur og nokkurn veginn hverng dreifingin er.“