Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tókust á um dómkvadda matsmenn

28.11.2013 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Munnlegur málflutningur í máli slitastjórnar Landsbankans gegn endurskoðunarfyrirtækinu PriceWaterhouse Coopers hófst í morgun. Slitastjórnin krefur fyrirtækið um tæplega 100 milljarða króna í skaðabætur vegna tjóns sem hún telur það hafa valdið bankanum fyrir hrun.

PriceWaterhouse Coopers greiddi slitastjórn Glitnis hundruð milljóna króna til að komast hjá málaferlum.  Samkvæmt upplýsingum frá Páli Benediktssyni, upplýsingafulltrúa slitastjórnar Landsbankans, var mest tekist á um hvort tilgreina eigi dómkvadda matsmenn í máli slitastjórnarinnar gegn endurskoðunarfyrirtækinu fyrir héraðsdómi í morgun.

Slitastjórnin krefur PriceWaterhouse Coopers um tæplega 100 milljarða króna í skaðabætur vegna tjóns sem hún telur fyrirtækið hafa valdið Landsbankanum fyrir hrun. Í stefnu slitastjórnarinnar kemur fram að stjórnin telur endurskoðendur fyrirtækisins hafa valdið tjóni með athöfnum sínum, athafnaleysi og rangri ráðgjöf.

Slitastjórn Glitnis stefndi fyrirtækinu einnig vegna tjóns sem hún taldi hafa hlotist af vanrækslu fyrirtækisins við framkvæmd endurskoðunarstarfa þeirra í þágu Glitnis á árunum 2007 og 2008.

Fram kemur í Kjarnanum í dag að PriceWaterhouse Coopers hafi greitt þrotabúi Glitnis hundruð milljóna króna til að komast hjá þeirri málshöfðun. Auk þess féll PriceWaterhouse Coopers frá skaðabótamáli sem það höfðaði gegn slitastjórn Glitnis vegna málareksturs fyrir dómsdóli í New York sem engu skilaði.

Samkvæmt Kjarnanum fór fyrirtækið þar fram á rúmar 82 milljónir króna í skaðabætur.