Slökkviliðsmenn slökktu síðustu glæðurnar í Notre Dame dómkirkjunni í París laust fyrir klukkan átta í morgun, um það bil fimmtán klukkustundum eftir að hann blossaði upp. Engin leið er að meta tjónið enn sem komið er en Macron Frakklandsforseti hefur lofað því að kirkjan verði endurbyggð.
„Þarna standið þið frammi fyrir þessari kirkju sem að allir þekkja, allir dá og allir vilja sjá og ef þetta hverfur þá verður bara heimurinn ekki samur eftir það. Þarna finnst mér menn hafa tekið dálítið stóra ákvarðanir strax, og réttar ákvarðanir, að fara að bjarga verðmætum. Bara byrja á því strax. Því hættan er oft í svona verkefnum að eldurinn kallar á þig en þarna er alveg greinilegt að menn voru að forgangsraða. Menn sáu í raun og veru og vissu strax í upphafi að þetta er verkefni sem ég er ekkert að fara að slökkva núna á kortéri. Hvað þarf ég að gera? Maður fyllist eiginlega bara aðdáun þegar maður les og sér fréttir af þessu og hreinlega bara hugsar meira út í þetta. Bara mikil aðdáun á þessum mönnum sem þarna voru að starfa, eða þessu fólki.“
Einn slökkviliðsmaður slasaðist alvarlega
Mikill eldsmatur var í kirkjunni, burðarvirki þaksins var úr timbri þannig að ljóst er að verkefni slökkviliðsins var stórt. Jón Viðar segir að margt verði að gera rétt í upphafi og því sé þjálfun slökkviliðsmanna mikilvæg. „Mér finnst aðdáunarvert að það hafi ekki fleiri slasast. Það eru fréttir um einn slasaðan slökkviliðsmann, reyndar alvarlega slasaðan, sem er náttúrlega mjög dapurt. En ekki hef ég séð fréttir af því að fleiri hafi slasast. Því að það er alveg klárt að þarna voru menn að leggja hrikalega mikið á sig og setja sjálfa sig jafnvel í hættu.“
Jón Viðar segir að talað hafi verið um það í fréttum að slökkvilið hafi verið lengi á staðinn en það þurfi ekki endilega að vera rétt. Bið eftir viðbragðsaðilum við þessar aðstæður geti verið erfið. „Svo hefur örugglega verið stórt verkefni hjá lögreglunni að halda fólki í fjarlægð.“