Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tóku rétta ákvörðun að bjarga verðmætum

16.04.2019 - 17:09
Mynd: RÚV/EPA / RÚV/EPA
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að mikil pressa hljóti að hafa verið á slökkviliði Parísar þegar eldurinn kom upp í Notre Dame, í ljósi þess hvaða hús var að brenna. Hann telur að slökkviliðið hafi tekið rétta ákvörðun með því að fara strax í að bjarga verðmætum. Rætt var við Jón Viðar í Síðdegisútvarpinu.

Slökkviliðsmenn slökktu síðustu glæðurnar í Notre Dame dómkirkjunni í París laust fyrir klukkan átta í morgun, um það bil fimmtán klukkustundum eftir að hann blossaði upp. Engin leið er að meta tjónið enn sem komið er en Macron Frakklandsforseti hefur lofað því að kirkjan verði endurbyggð.

„Þarna standið þið frammi fyrir þessari kirkju sem að allir þekkja, allir dá og allir vilja sjá og ef þetta hverfur þá verður bara heimurinn ekki samur eftir það. Þarna finnst mér menn hafa tekið dálítið stóra ákvarðanir strax, og réttar ákvarðanir, að fara að bjarga verðmætum. Bara byrja á því strax. Því hættan er oft í svona verkefnum að eldurinn kallar á þig en þarna er alveg greinilegt að menn voru að forgangsraða. Menn sáu í raun og veru og vissu strax í upphafi að þetta er verkefni sem ég er ekkert að fara að slökkva núna á kortéri. Hvað þarf ég að gera? Maður fyllist eiginlega bara aðdáun þegar maður les og sér fréttir af þessu og hreinlega bara hugsar meira út í þetta. Bara mikil aðdáun á þessum mönnum sem þarna voru að starfa, eða þessu fólki.“

Einn slökkviliðsmaður slasaðist alvarlega

Mikill eldsmatur var í kirkjunni, burðarvirki þaksins var úr timbri þannig að ljóst er að verkefni slökkviliðsins var stórt. Jón Viðar segir að margt verði að gera rétt í upphafi og því sé þjálfun slökkviliðsmanna mikilvæg. „Mér finnst aðdáunarvert að það hafi ekki fleiri slasast. Það eru fréttir um einn slasaðan slökkviliðsmann, reyndar alvarlega slasaðan, sem er náttúrlega mjög dapurt. En ekki hef ég séð fréttir af því að fleiri hafi slasast. Því að það er alveg klárt að þarna voru menn að leggja hrikalega mikið á sig og setja sjálfa sig jafnvel í hættu.“

Jón Viðar segir að talað hafi verið um það í fréttum að slökkvilið hafi verið lengi á staðinn en það þurfi ekki endilega að vera rétt. Bið eftir viðbragðsaðilum við þessar aðstæður geti verið erfið. „Svo hefur örugglega verið stórt verkefni hjá lögreglunni að halda fólki í fjarlægð.“ 

epaselect epa07510452 View of the damaged roof inside the Notre-Dame-de Paris in the aftermath of a fire that devastated the cathedral during the visit of French Interior Minister Christophe Castaner (not pictured)  in Paris, France, 16 April 2019. A fire started in the late afternoon 15 April in one of the most visited monuments of the French capital.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

Skemmdir geti komið í ljós síðar 

Jón Viðar segir að velja þurfi vel tæki til að nota við slökkvistarf við þessar aðstæður. Erfitt hefði reynst til dæmis að nota þyrlu þarna og frekar skapað hættu en hitt. Drónar séu nýtt tæki sem nýttir séu við slökkvistarf til að fá góða yfirsýn. „Þarna greinilega taka þeir ákvörðun mjög snemma að reyna að verja og halda þessum steyptu turnum sem í raun var ekki annað hægt að gera því hitt var timburvirki og kominn eldur í þetta á nokkrum mínútum,“ segir Jón Viðar. Það hljóti að hafa verið erfitt fyrir þá og aðra að sjá turninn falla.  „Þetta er ekkert létt þó svo að þeir viti að þeir geti ekki bjargað honum, en þegar eitthvað svona fellur fyrir framan augun á þér þá finnst þér eins og þér hafi mistekist eitthvað.“

Jón Viðar segir að það eigi eftir að koma í ljós hverjar skemmdirnar eru í raun. Stundum sjáist það ekki strax, til dæmis þegar skemmdir hafa orðið af völdum reyks. „Reykskemmdir geta oft valdið gífurlegum usla og skemmdum sem maður sér kannski meira eftir á. Maður er svo glaður að hafa náð hlutnum heilum út en hann er kannski til staðar en er hrikalega illa farinn af reykskemmdum. Þetta á allt bara eftir að koma í ljós.“ 

Jón Viðar segir að þróun í eldvörnum og vilji einstaklinga til að nota nýtísku eldvarnir í eldri byggingum mótast af hremmingum annarra. „Þetta kemur til með að hafa áhrif á brunavarnir og eldvarnir í menningarverðmætum á komandi árum. Það er alveg ljóst og það er bara vel. Hvort einhverjar eldvarnir hefðu breytt miklu akkúrat þarna, veit maður ekki, því þetta var strax í upphafi svo svakalegt verkefni.“ 

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Jón Viðar í spilaranum efst í fréttinni. 

epa07510455 View of the facade of the Notre-Dame-de Paris in the aftermath of a fire that devastated the cathedral during the visit of French Interior Minister Christophe Castaner (not pictured)  in Paris, France, 16 April 2019. A fire started in the late afternoon 15 April in one of the most visited monuments of the French capital.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

Gæti tekið einhver ár að endurreisa Notre Dame

Notre Dame er orðin 850 ára gömul. Ljóst þykir að það gæti tekið einhver ár að endurreisa kirkjuna eftir eldsvoðann í gær. Þak kirkjunnar, sem var að mestu úr timbri brann og hrundi. Eitt af helstu áskorunum framundan er að tryggja öryggi því enn er hrunhætta í kirkjunni. CNN hefur eftir sagnfræðingnum Jonathan Foyle, sem hefur sérhæft sig í sögu arkitektúrs, að mikilvægt sé að koma í veg fyrir frekari tjón án tafar. „Byggingin er blaut eftir allt vatnið sem dælt var á hana, þannig að það þarf að skýla kirkjunni einhvern veginn fyrir veðri og vindum. Í hvert sinn sem það rignir þá verða einhverjar skemmdir, þannig að baráttan verður gegn veðrun núna.“ 

Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðstjóri hjá Minjavernd segir að hægt verði að bjarga Notre Dame kirkjunni í París ef steinhvelfingin hefur haldið. Hins vegar verði erfitt að finna timbur í tréverkið og endurbyggingin verði dýr. Hægt er að sjá á myndum að hvelfingin stendur enn en ekki er vitað hvort hún hafi veikst við hitann frá eldinum. Rætt var við hann í Speglinum

Kirkjuskipið virðist aðeins hafa orðið fyrir skemmdum að hluta, en skemmdir á steinbogum byggingarinnar gætu verið meiri en virðist í fyrstu. Foyle segir í viðtalinu við CNN að hár hiti geti breytt efnasamsetningu kalksteins og dregið úr styrk hans. Það sama megi segja um áhrifin af köldu vatni úr slöngum slökkviliðsins á steinhleðsluna, það gæti valdið sprungum. 

Þá segir Foyle að litlar upplýsingar séu til um byggingarframkvæmdir kirkjunnar. Framkvæmdir hafi hafist 1163 og hafi að mestu verið lokið í kringum 1240. En það sé ekki eins og Notre Dame hafi ekki tekið breytingum í áranna rás. „Frekar ætti að líta á þetta sem erfiðan kafla í langri hringrásarsögu eyðileggingar og viðgerða. Kirkjan hefur staðið af sér stríð og umbótatímabil, og þetta verður, held ég, annar slíkur kafli.“  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV