Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tók yfir nýnasistahóp til að leysa hann upp

05.03.2019 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Það kom mörgum á óvart þegar það kvisaðist út á dögunum að James Hart Stern, 54 ára svartur Bandaríkjamaður, væri orðinn formaður einn­ar stærstu nýnas­ista­hreyf­ing­ar þar í landi. Markmið Stern er að leysa hreyfinguna upp innan frá en hann segist hafa komist til valda með því að leika á fyrrverandi formann.

NSM er ein þekktasta þjóðernishreyfing Bandaríkjanna. Hreyfingin klæðist gjarnan klæðnaði sem minnir á klæðnað þýskra nasista, meðlimir þess hafa hyllt Adolf Hitler og skipulagt fjöldafundi víða um Bandaríkin þar sem hvítir þjóðernissinnar safnast saman í þúsundum. Til að mynda fjölmennti hreyfingin í göngu hvítra þjóðernissinna í Charlottesville 12. ágúst árið 2017.

Neyðarástandi var lýst yfir í Charlotteville í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum í ágúst árið 2017. Hundruð manna sem kölluðu sig hvíta þjóðernissinna, gengu fylktu liði í borginni og hrópuðu slagorð á borð við „Líf hvítra skipta máli“; „ein þjóð, eitt ríki - stöðvum aðflutning fólks“ og „þið munið ekki ýta okkur til hliðar“. Hundruð mótmælenda fóru um með kyndla í hönd en þeir mótmæltu áformum borgaryfirvalda um að fjarlægja styttu af herforingjanum Robert Lee á torgi í borginni. Lee fór fyrir hersveitum Suðurríkjanna í bandaríska borgarastríðinu, þar sem sunnanmenn börðust meðal annars gegn afnámi þrælahalds. Einn lést í mótmælunum þegar þjóðernissinni keyrði inn í hóp gagnmótmælenda.

Stern lét það einmitt vera sitt fyrsta verk, sem forseti NSM, að leggja fram játningu hópsins á ásökunum um ofbeldi í mótmælunum í Charlottesville. Hópurinn hafði áður verið sakaður um slíkt í ákæru en hafði ávallt neitað sök. Þá hyggst Stern breyta vefsíðu samtakanna sem milljónir hvítra þjóðernissinna heimsækja á hverju ári. Allt efni sem tengist samtökunum og þjóðernisstefnunni verður tekið niður og þess í stað verður vefsíðan helguð kennslu um helförina.

Segist hafa verið blekktur

James Stern er í ítarlegu viðtalið við Washington Post. „Ég, svartur maður, tók yfir nýnasistahóp og lék á stjórnendurna,“ sagði hann. Segir hann það bæði hafa verið erfitt og hættulegt. Segist hann hafa komist óséður í gegnum víglínu óvinarins, beitt miklum sannfæringakraft og fengið sitt fram með brögðum. 

Það kvisaðist ekki út fyrr en núna fyrir helgi að James Stern væri orðinn forseti hreyfingarinnar en það var þó skjalfest í janúar. Hvorki hafði heyrst í Stern né Jeff Schoep, manninum sem hafði leitt samtökin í 24 ár, um forsetabreytinguna. Eftir að Stern tilkynnti að hann væri orðinn forseti samtakanna og hvað hann hygðist gera með samtökin ætlaði allt um koll að keyra. Schoep gaf út yfirlýsingu í kjölfarið.

„Ég ætlaði ekki að gefa út yfirlýsingu vegna málsins en þar sem Stern segir hverja lygina á fætur annarri verð ég að svara þessu. Sannleikurinn verður að koma fram,“ skrifar Schoep. Segist hann hafa verið blekktur af Stern sem sannfærði hann um að besta leiðin til að vernda meðlimi samtakanna frá Charlottesville-ákærunni væri að láta samtökin í hendur sér.

Kynntist fyrrum Ku Klux Klan stjórnanda í fangelsi

Stern kynntist fyrrum Ku Klux Klan stjórnandanum Edgar Ray Killen í fangelsi í Mississippi. Stern sat inni fyrir að hafa svikið fé út úr fólki en Killen fyrir aðild að þremur morðum. Voru þeir saman í fangaklefa, fór vel með þeim og urðu þeir trúnaðarvinir - þrátt fyrir að Killen hafi oft á tíðum kallað Stern rasískum nöfnum. Nokkrum árum eftir að Stern hafði afplánað dóm sinn notaði hann einstök tengsl sín við Killen til að leysa Klan-samtök hans upp.

Stern segir að árið 2014 hafi Schoep svo leitað til hans vegna sambands hans við Killen. Schoep neitar því hins vegar og segir að Stern hafi fyrst haft samband þar sem Killen hafi mælt með því að þeir hittust. Hugmyndin var að koma á einhvers konar kynþáttasáttmála í Bandaríkjunum. Leiðtogar úr NSM og baráttufólk fyrir réttindum svartra hittust svo á fundi í Kaliforníiu til að ræða saman um hvernig hóparnir gæru unnið saman án þess að kæmi til ofbeldis. Í kjölfarið ræddu Stern og Schoep saman reglulega.

Stern segir að þeir hafi rökrætt um helförina, um hætti og gjörðir nasista, hugmyndafræði hvítra þjóðernissinna og NSM hópinn. Markmiðið var alltaf, að sögn Stern, að fá Schoep til að breyta um skoðun. „Frá fyrsta degi sagði ég við Schoep að ég væri ósammála honum og að mér líkaði illa við hann. Ég talaði við hann því ég vonaðist til að geta breytt honum. Það tókst ekki,“ sagði Stern.

Segir Schoep hafa leitað til sín vegna ákærunnar

Í byrjun árs leitaði Schoep svo til Stern vegna ákærunnar, eða svo segir Stern. Schoep neitar því hins vegar. Ákæran var lögð fram á hendur NSM og annarra hópa hvítra þjóðernissinna árið 2017 af gagnmótmælendum í Charlottesville. Schoep á að hafa verið verulega stressaður vegna ákærunnar. Hann hafi ólmur viljað hætta sem forseti og talaði um að kostnaðurinn vegna ákærunar væri íþyngjandi. Einnig væri upplausn innan samtakanna og að traust til hans færi þverrandi. Stern hafi þarna séð tækifæri og sannfært Schoep um að láta embættið sér í té.

„Hann vissi að hann væri með óvenjulega mikið af viðkvæmum og ófyrirsjáanlegum meðlimum í samtökunum. Hann gerði sér grein fyrir því að einhver væri að fara að fremja glæp og að hann þyrfti að bera ábyrgð á því“ segir Stern. Schoep segir Stern fara með rangt mál. Hann hafi einungis gert Stern að forseta vegna þess að þá yrði ákæran hugsanlega lögð niður. Hann hafi leikið á hann og nú sé Stern búinn að koma sér í mikla hættu.

Um miðjan janúarmánuð var það skjalfest að Stern yrði forseti hópsins. 15. febrúar var það skráð í skjöl tengdum ákærunni að sá sem myndi svara fyrir NSM væri James Stern. Schoep segir þó að þrátt fyrir að það sé skjalfest að Stern sé formlega forseti samtakanna þýði það ekki að hann hafi stjórn á meðlimum hreyfingarinnar eða aðgang að samfélagsmiðlum hópsins og spjallþráðum. „Hann stjórnar engu,“ segir Schoep. Þó er óljóst hvernig samtökin starfi áfram þegar Stern stjórnar hópnum lagalega.

„Segið það sem þið viljið um mig,“ segir Stern. En ég hef núna tvisvar sinnum leyst upp samtök þjóðernissinna.“