Tók flugið inn í Bónus

12.01.2020 - 14:16
Mynd: RÚV / RÚV
Það hefur verið kalt á höfuðborgarsvæðinu undanfarið. Þá leita menn og málleysingjar sér skjóls ef þeir geta. Þessi svartþröstur er þar engin undantekning. Hann ákvað að taka flugið inn í verslun Bónuss við Nýbýlaveg í Kópavogi og skoða aðstæður þar. Greyinu hefur vafalítið hlýnað á meðan en hvort hann fékk eitthvað í gogginn í versluninni skal ósagt látið.

Fuglinn virðist áhugasamur mjög um bleyjur, því þegar hans varð fyrst vart sat hann á bleyjukassa í versluninni. Hann flaug síðan um og tók sér aftur sæti á bleyjupakka áður en hann leitaði að leið út úr versluninni. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV