Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Tók ákvörðunina fyrir hálfum mánuði

Mynd með færslu
 Mynd:
Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segist hafa tekið ákvörðunina um að hætta formennsku fyrir um hálfum mánuði. Hann segir að ekki hafi verið þrýst á hann að hætta. Meira hafi verið um að hann hafi verið hvattur til að sitja áfram.

Steingrímur tilkynnti á laugardag að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Vinstri grænna á landsfundi flokksins um næstu helgi. Í fréttum fyrir helgi sagðist hann aldrei hafa gefið annað í skyn en hann yrði áfram. Þá hafði hann hins vegar ákveðið að hætta.

„Maður gefur ekki annað í skyn fyrr en maður kynnir svona ákvörðun. Þu hefur enga hálfvelgju í því. Á meðan þú ert formaður í flokki þá ertu ekkert að gefa annað í kynna fyrr en þú tilkynnir eitthvað annað,“ sagði Steingrímur í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann hafi tekið ákvörðunin endanlega fyrir um hálfum mánuði síðan, í sínum huga.  

Góður tími til að hætta formennsku

Hann hafi hins vegar viljað ræða við nánustu samherja sína, og það hafi verið upp og ofan hvað fólki fannst, en þó hafi frekar verið þrýst á hann að halda áfram. Nú sé hins vegar góður tími til að hætta.  „Og það varð mín niðurstaða að að þessu hefði auðvitað dregið hvort sem var fyrr eða síðar og væntanlega fyrr. Ég er eiginlega kominn fram yfir þann tíma sem ég hafði hugsað mér að væri heppilegt að sitja í þessu starfi.“

Steingrímur segist hafa gert ráð fyrir því í síðustu kosningum að hann kynni að standa í þessum sporum í dag. Krefjandi kjörtímabil hafi verið framundan. Hann segist hafa rætt það við samherja sína að framundan væru erfið verkefni sem krefðust fórna og ákvarðana sem ekki yrðu til vinsælda fallnar. Það væri allt eins líklegt að það kallaði á breytingar á flokknum og hans stöðu. „Ég var alveg undir það búinn, þegar ég tek að mér að verða fjármálaráðherra við þessar ógnarlegu aðstæður, vitandi vel hvað líklegt var að fjármálaráðherra biði, að ég kynni ekki að verða vinsælastur manna eftir að búið væri að gera það sem gera þurfti og gera varð.“

Hann segist þeirrar skoðunar að fjármálaráðherra lands megi ekki aðeins hugsa um sínar vinsældir. „Ég hef gengið í þetta verkefni með því hugarfari að það sem landið þurfti á að halda væri ekki endilega maður sem væri upptekinn af því hvaða örlög biði hans í næstu kosningum heldur að hann hefði hafa kjark og dug til að ráðast í þær aðgerðir sem óumflýjanlegar voru og sjálfsögðu gera þær eins vel og hægt var. Það tel ég að við höfum gert. Farið eins félagslega meðvitað í gegnum þetta og mögulegt er. Það eru menn sammála um allavega utan landsteinanna,“ segir Steingrímur. Sú leið Íslands gegnum kreppuna, að reyna að passa upp á velferðarkerfið í leiðinni, veki almennt athygli erlendis, þó það endurspeglist ekki í umræðunni innanlands.

Kynslóðaskipti þurfi að fara vel fram

Steingrímur segir að kynslóðaskipti þurfi að fara vel fram og kveðst spenntur fyrir því að hafa meiri tíma til að sinna sínu kjördæmi sem óbreyttur þingmaður.  Hann segist ekki vilja undirgangast þá kenningu að eftir að hafa verið formaður í stjórnmálaflokki sé ekki hægt að verða aftur óbreyttur þingmaður. Hann hafi íhugað í haust að hætta þingmennsku alfarið en síðan ákveðið að halda áfram. 

Steingrímur fagnar framboði Katrínar Jakobsdóttur til formennsku. Hún hafi mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur, enda búin að vera varaformaður flokksins í tíu ár. 

Fá árangurinn ekki viðurkenndan innanlands

Steingrímur segir að ríkisstjórnin hafi tekist á við erfið verkefni en fái ekki árangurinn nánast aldrei viðurkenndan innanlands. „Voldug öfl hafa sameinast um það að reyna að rífa niður allt það sem ríkisstjórnin hefur gert og tala niður allan árangur sem við höfum náð,“ segir Steingrímur.

„Það er himinn og haf á milli umræðunnar hér innanlands og þess hvernig horft er á Ísland núna utan frá. Hingað koma fréttamenn og erlendir stjórnmálamenn og þeir ljúka almennt og án undantekninga lofsorði á þann árangur sem hér hefur náðst. Umheimurinn horfir þannig á þetta að Íslands var að hrynja saman 2008 og 2009. Við töpuðum öllu okkar fjármálakerfi og umræðan var um það hvort landið myndi lenda í greiðslufalli og þroti. Síðan fara að berast þær fréttir að allt í einu er hér orðinn hagvöxtur og viðsnúningur, meiri en í öllum nálægum löndum.“

Árangurinn veki almennt undrun, aðdáun og virðingu. „Og hvað er að gerist núna? Lánshæfisfyrirtækin eru að hækka Ísland í mati. Þannig að við erum að fá viðurkenningu umheimsins úr öllum áttum á því að hér hefur náðst mikill árangur.“

Tiltekin pólitísk öfl og hagsmunaöfl megi hinsvegar ekki til þess hugsa að vinstri stjórnin fái nokkra viðurkenningu fyrir það. „Það skal rifið niður hvað sem það kostar, jafnvel þó það kosti að halda úti dagblöðum með bullandi tapi ár eftir ár.“