Töfrar í barnslegu hræðsluástandi

Mynd með færslu
 Mynd: Una útgáfuhús

Töfrar í barnslegu hræðsluástandi

15.10.2019 - 14:15

Höfundar

„Sem barn vissi ég fátt meira spennandi en bannaðar hryllingsmyndir á myndbandaleigum þar sem ég grandskoðaði hulstrin af myndum sem ég mátti alls ekki sjá,“ segir Brynja Hjálmsdóttir ljóðskáld. Ný bók hennar Okfruman bregður upp hryllingsmyndum af barnæsku og uppvexti.

Reykvíska ljóðskáldið Brynja Hjálmsdóttir er að senda frá sér sína fyrstu bók í mánuðinum en sú nefnist Okfruman og er gefin út af Unu útgáfuhúsi. Tilhugsunin um að senda textann frá sér fyrir alla að sjá og lesa er bæði spennandi og ógnandi afhjúpun samkvæmt skáldinu. „Ég er búin að vera í viðvarandi sviðskrekksástandi mjög lengi núna,“ segir hún en bætir við eftir smá umhugsun: „Það er bara vitleysa samt, óöryggið. Þetta er sniðug bók sem ég vona að margir vilji lesa.“

Lífið hefst á oki og þjáningu

Nafn bókarinnar, Okfruman, vísar í tvær kynfrumur sem sameinast og verða að fyrstu frumu nýs einstaklings. „Það var frekar hversdagsleg stund þegar titillinn kom til mín, ég var að vaska upp og fékk svakalega uppljómun,“ segir Brynja. „Þetta er reyndar ótrúlegt orð sem gefur manni tilfinningu fyrir því að lífið hefjist á oki og þjáningu. Þegar nafnið kom til mín vissi ég allt í einu að textarnir sem ég átti á strjáli gætu verið heildstætt verk.“

Þó textar Brynju séu persónulegir eru þeir ekki sjálfsævisögulegir. Þeir fylgja skáldaðri manneskju frá getnaði í gegnum uppvöxt, áföll og brjálæði. Þó að persónan sé skálduð viðurkennir Brynja að hún fléttist sjálf þar inn að einhverju leyti. „Þetta er saga í ljóðum og ég vildi búa til stóran heim með fáum orðum, framkalla spennu og undarlegar myndir,“ segir Brynja. „Þetta er einhvers konar ferðalag. Rannsókn á því hvernig líf kviknar og slokknar og hvernig minningar birtast og hverfa.“

Sakleysislegustu hlutir valda ótta

Bókin samanstendur af brotakenndum minningum ljóðmælanda sem oft á tíðum erum afar myrkar sem fyrr segir. Brynja segir að fyrir sér séu minningarnar merkilegt fyrirbæri meðal annars fyrir þær sakir að það eru oft þær myrkustu sem eru sterkastar og lifa lengst. „Sjálf átti ég frekar friðsæla barnæsku en hér kýs ég að sökkva mér ofan í myrkrið og búa til hrylling úr því.“

Brynja hefur sjálf alltaf verið heilluð af óhugnaði og dramatík. Sem barn vissi hún fátt meira spennandi en bannaðar hryllingsmyndir og á myndbandsleigum grandskoðaði hún dolfallin hulstrin af myndum sem hún mátti alls ekki sjá. „Ég man sérstaklega eftir hulstrinu um kvikmyndina Hellraiser og The Crow og ég var gagntekin af því hve ógeðslegt þau voru,“ segir hún kímin. „Þegar maður er barn er maður svo opinn, ímyndunaraflið er svo kröftugt. Það eru skuggalegir töfrar í barnslegu hræðsluástandi þar sem sakleysislegustu hlutir geta vakið ótta.“

Grámann í nýju hlutverki

Þegar Brynja var að skrifa bókina reyndi hún markvisst að magna upp gamlar martraðir og búa til sögur úr þeim. Í einni þeirra birtist meðal annars þjóðsagnapersónan Grámann í Garðshorni en aðeins öðruvísi en við þekkjum hann áður. „Í persónunni í bókinni verður hann að hræðilegri ófreskju sem ásækir ljóðmælanda. Í raun og veru var hann þó bara góður gaur.“

Brynja er með meistarapróf í ritlist við Háskóla Íslands og er hún sannfærð um að námið hafi hjálpað sér að fikra sig út á ljóðabrautina. „Námið skapar rými til að spreyta sig, æfa sig að skrifa og fella niður grímuna og múrana. Námið bjó líka til sterkt net fyrir mig sem hittist og við lesum yfir fyrir hvert annað hittumst til að hnoða saman listamannahjörtun, grínast, slúðra og pústa um allt óöryggið og bullið.“

Áætlaður útgáfudagur er fimmtudaginn 17. október og ætlar Brynja að halda upp á daginn með því að bjóða vinkonum sínum í mat. 6. nóvember verður hins vegar sjálft útgáfuhófið og þá hyggst hún setja á sig varalit, fara í kjól og gera gloríur að eigin sögn með sínu nánasta fólki.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Una útgáfuhús gefur út J.M.Coetzee