Töf á aðalskipulagsbreytingum í Reykhólahreppi

03.06.2019 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Stefnt er að því að sveitarstjórn Reykhólahrepps afgreiði tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna Vestfjarðavegar til auglýsingar fyrir miðjan mánuðinn. Málið hefur tafist meira en áætlað var en fjórir mánuðir eru síðan sveitarstjórn samþykkti að hafa leið Þ-H um Teigsskóg í aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Leiðarval samþykkt fyrir fjórum mánuðum

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á sveitarstjórnarfundi 22. janúar að Þ-H leið um Teigsskóg yrði í auglýsingu um aðalskipulagsbreytingu sveitarfélagsins. Þá hafði sveitarfélagið haft til skoðunar svokallaða R- leið sem var tillaga norsku verkfræðistofunnar Multiconsult.

Vinna nýja tillögu

Sveitarstjórn vinnur að nýrri tillögu að breytingu að aðalskipulagi til auglýsingar. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir að þar þurfi meðal annars að gera grein fyrir vendingum í málinu síðasta árið. Nýr vegkostur, leið R, kom fram, öryggismat, valkostagreining Viaplan og viðbótarlíffræðirannsóknir. Þá er reynt að koma til móts við ábendingar Skipulagsstofnunar. Ferlið hafi tekið langan tíma en sé nú á lokametrunum. 

Stefnt að því að afgreiða tillöguna fyrir miðjan mánuð

Sveitarstjórn fundar á morgun. Tryggvi gerir ráð fyrir því að málið verði rætt á fundinum en ekki afgreitt. Hann vonast til að það takist að afgreiða tillöguna til auglýsingar fyrir miðjan mánuðinn.

Ljóst er að um þriggja mánaða töf hefur orðið á málinu, miðað við það sem var áætlað, en breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins eru forsenda þess að sveitarfélagið getur veitt Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir umdeildri vegagerð um Teigsskóg í Gufudalssveit. 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi