Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tóbaksnotkun drepur yfir 9 milljónir á ári

28.07.2019 - 00:21
FILE - This March 28, 2019, file photo shows cigarette butts in an ashtray in New York. Two of the hottest trends in investing are working in tandem to steer billions of dollars toward companies seen as the best corporate citizens. The sustainable investing field in its early days attracted investors by avoiding so-called “sin stocks”-- gun makers, cigarette manufacturers, etc. (AP Photo/Jenny Kane, File)
 Mynd: Associated Press - AP
Neysla tóbaks kostar yfir átta milljónir mannslífa á ári hverju og um eina komma tvær milljónir dauðsfalla í viðbót má rekja til óbeinna reykinga. Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um tóbaksnotkun í heiminum, sem kynnt var í Ríó de Janeiro í Brasilíu í gær.

Samkvæmt skýrslunni reykti um það bil sjöunda hver manneskja á Jörðinni tóbak á árinu 2016, eða um 1,1 milljarður manna, 15 ára og eldri. Um 80 prósent þeirra búa í löndum þar sem menntun og meðaltekjur eru undir meðallagi á heimsvísu, og þar stunda stóru tóbaksfyrirtækin líka áróður sinn, markaðssetningu og hagsmunagæslu af mestum krafti.

Gríðarlegt heilsu- og fjárhagstjón

Fyrir utan skelfileg áhrifin á heilsu fólks reiknast sérfræðingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar til, að efnahagslegt tap heimsins, sem rekja má til heilsubrests, minni framleiðni og fleiri þátta, nemi um það bil 1,4 biljónum Bandaríkjadala, eða um 170 biljónum íslenskra króna, á ári.

Þótt tóbaksfyrirtækin stundi harða markaðssetningu víða um heim vex baráttunni gegn reykingum og tóbaksnotkun líka ásmegin, hvert sem litið er, og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur líka mikla áherslu á að ríki heims bjóði borgurum sínum aðstoð við að hætta notkun tóbaks.

Stjórnvöld þurfa að hjálpa fólki að hætta tóbaksnotkun

Samkvæmt skýrslunni búa nú sextíu prósent Jarðarbúa í löndum þar sem stjórnvöld hafa gripið til í það minnsta eins úrræðis sem miðar að því að draga úr reykingum, fjórum sinnum fleiri en árið 2007. Í um helmingi ríkja heims er skylda að birta myndir á tóbaksumbúðum, sem ætlað er að fæla fólk frá neyslu innihaldsins, svo sem af æxlum, svörtum lungum og illa útleiknum hjörtum.

Hins vegar býr innan við þriðjungur mannkyns í löndum þar sem hið opinbera býður borgurum sínum aðstoð af einhverju tagi við að hætta tóbaksneyslu. 2018 reyktu ríflega 12 prósent fullorðinna Íslendinga, þar af 8,6 prósent daglega, samkvæmt Talnabrunni Landlæknisembættisins