Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Tjón ferðaþjónustunnar lítið

26.05.2011 - 08:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, segir tjón ferðaþjónustunnar á Íslandi lítið vegna gossins í Grímsvötnum. Eitthvað hafi verið um afbókanir erlendra ferðamanna en erfitt sé að greina hvort þær séu vegna atburðanna síðustu daga.

Bókanir hjá íslenskum ferðaþjónustuaðilum benda til þess að eitt stærsta ferðasumar Íslands sé í uppsiglingu. Hvort gosið í Grímsvötnum hafi áhrif á þessar bókanir kemur í ljós á næstu dögum að sögn Ólafar Ýrar Atladóttur, ferðamálastjóra.


„ Það er auðvitað eitthvað um afbókanir,  það eru alltaf einhverjir sem fyllast ótta þegar svona gerist.  Hins vegar þá eru þær litlar og svo er líka erfitt að greina hvort það er vegna þessara atburða eða vegna þess að þetta er tíminn sem menn þurfa að hrökkva eða stökkva og það eru auðvitað alltaf einhverjir sem hrökkva á þessum árstíma,“segir Ólöf.


Ólöf segir ferðaþjónustuaðila búa að þeirra reynslu sem fékkst í fyrra þegar gaus Í Eyjafjallajökli. Viðbragðsteymi ferðaþjónustunnar hafi nú tekið fljótt til starfa og veitt réttar upplýsingar til ferðamanna erlendis.


„Menn gátu svolítið gengið í þau verk sem þurfti að vinna. hver vissi  hvað hann ætti að gera. Og ég tel að viðbrögðin okkar hafi einkennst af þessari reynslu,“ segir Ólöf.