Tjón af völdum hamfara metið á 18.500 milljarða

09.01.2020 - 05:33
epa07916685 An aerial picture shows floods in Nagano, Nagano prefecture, Japan, 13 October 2019. According to latest media reports, at least nine people have died and more than 10 are missing after powerful typhoon Hagibis hit Japan provoking landslides and rivers overflowing  across the country.  EPA-EFE/JIJI PRESS JAPAN OUT EDITORIAL USE ONLY/  NO ARCHIVES
Mynd frá borginni Nagano, 13. október 2019. Mynd: EPA
Fellibyljir, jarðskjálftar, hitabylgjur, eldgos, gróðureldar og aðrar náttúruhamfarir ollu á síðasta ári eignatjóni sem metið er á 150 milljarða Bandaríkjadala, um það bil 18.500 milljarða króna. Þetta er niðurstaða þýska endurtryggingafélagsins Munich Re, sem leggur árlega mat á efnahagslegt tjón af völdum hvers kyns náttúruhamfara í heiminum. Mest varð tjónið í Japan, þar sem fellibyljir ollu gríðarlegu tjóni, annað árið í röð.

Fellibylurinn Hagibis, sem varð hátt í 100 manns að bana í október, flestum í  Japan, olli efnahagslegu tjóni sem metið er á 17 milljarða Bandaríkjadala, um 2.100 milljarða króna. Þar var það ekki síst úrhellisrigningin sem fylgdi storminum, sem gerði usla, en sólarhringsúrkoman mældist meira en 1.000 millilítrar þar sem mest var.

Eignatjónið í fyrra er á svipuðu róli og verið hefur undarin ár, að teknu tilliti til verðlagsþróunar, og tryggingafélög bættu rétt rúmlega þriðjung þess. Þýska blaðið Der Spiegel hefur eftir Ernst Rauch, yfirmanni Loftslags- og jarðvísindadeildar endurtryggingarisans, að litlar líkur séu á að eignatjón af völdum náttúruhamfara muni minnka á komandi árum. Þvert á móti þurfi tryggingafélög heimsins að reikna með því að hamfaratjón fari vaxand á næstu árum og áratugum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV