Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tjaldbúðir fyrir hælisleitendur við landamærin

10.08.2017 - 04:54
A taxi filled with women from many nations pay their fare as they arrive at an unofficial border station across from Saint-Bernard-de-Lacolle, Quebec on Roxham Road in Champlain, N.Y., early Tuesday, Aug. 8, 2017. The migrants are being driven north by
Margir fara langleiðina að landamærunum með rútu eða leigubíl en ganga síðasta spölin, með allt sitt hafurtask í eftirdragi. Mynd: AP
Stjórnvöld í Kanada hafa falið her og riddaralögreglu að reisa tjaldbúðir fyrir allt að 500 manns í smábæ við landamæri Bandaríkjanna. Ástæðan er vaxandi fjöldi fólks sem kemur fótgangandi yfir landamærin á þessum stað og leitar ásjár í Kanada, af ótta við að verða vísað frá Bandaríkjunum.

Saint-Bernard-de-Lacolle er 1.500 manna smáær í Quebec-fylki, steinsnar frá bandaríska smábænum Champlain í New York-ríki. Fjölfarin landamærastöð er á mörkum þessara tveggja smábæja, þar sem þúsundir fara akandi um á degi hverjum. Nokkurn spöl frá henni hefur önnur, óopinber og í raun ólögleg „landamærastöð“ sprottið upp á síðustu mánuðum, þar sem fólk fer gangandi yfir landamærin.

Nú er svo komið að hundruð fara þar yfir á tveimur jafnfljótum og ætla sér að sækja um hæli eða dvalarleyfi í Kanada. Hefur ásóknin vaxið svo mjög að frumafgreiðsla á málaleitan göngufólksins á þessum stað tekur nú tvo til þrjá sólarhringa. Því var brugðið á það ráð að fá riddaralögregluna og herinn til að reisa þar upphituð og upplýst tjöld sem hýst geta allt að 500 manns, svo enginn þurfi að liggja úti á meðan farið er yfir erindi hvers og eins. Um 100 hermenn unnu að gerð búðanna, en þeir munu flestir hverfa þaðan um leið og verkinu er lokið. 

Landamærin við Saint-Bernard-de-Lacolle eru langt í frá einsdæmi. Stjórnvöld í Quebec og öðrum fylkjum Kanada hafa brugðist við auknum fjölda farandfólks og hælisleitenda með því að stækka og fjölga móttökustöðvum svo um munar. Meðal annars var Ólympíuleikvangnum í Montreal breytt í neyðarbúðir fyrir um 3.300 hælisleitendur.

Samkvæmt upplýsingum frá kanadískum innflytjendayfirvöldum er langflestir þeirra sem flúið hafa Bandaríkin yfir til Kanada síðustu daga Haíti-búar, sem búið hafa í Bandaríkjunum árum saman. Í frétt breska blaðsins The Guardian af málinu kemur fram að stjórnvöld í Washington hótuðu því í maí síðastliðnum, að fella úr gildi tímabundnar undanþágur sem hafa tryggt Haítíbúum sérstaka vernd vegna mikilla hamfara sem dunið hafa á Haítí undanfarin ár.  Þar á meðal eru mannskæður jarðskjálfti 2010, kólerufaraldur og fellibylurinn Matthew.

John Kelly, nýráðinn starfsmannastjóri Hvíta hússins, sem þá var enn ráðherra heimavarna, ákvað að framlengja undanþágurnar um hálft ár til að gefa fólki færi á að undirbúa heimförina, og yfirvöldum á Haíti tíma til að undirbúa endurkomu þeirra tæplega 60.000 Haítíbúa sem vitað er að nýttu sér þessa undanþágu. Jafnframt tók Kelly fram, að engin ástæða væri til að ætla, að frekari framlenging yrði í boði. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV