Tjaldað til einnar nætur í Steiney

Mynd: RÚV / RÚV

Tjaldað til einnar nætur í Steiney

20.03.2018 - 11:25

Höfundar

Listakonurnar Saga Garðarsdóttir og Steiney Skúladóttir reru á kajökum yfir Langasjó og gistu í eyjum á leiðinni. Ferðalag þeirra var hluti af fyrsta þættinum af Úti, nýrri íslenskri þáttaröð um útivist sem hefur göngu sína á sunnudagskvöld á RÚV.

„Við sigldum að Langasjó og komum að eyjum. Ein eyjan var þokkalega stór og við ákváðum að gefa henni nafnið Steiney,“ segir Steiney Skúladóttir. „Fyrri náttstaðurinn var ofboðslega notalegur skáli með litlu risi sem mér finnst mjög rómantískt og kósí. Það var líka náttúrulega mjög hlýtt. Seinni náttstaðurinn var Steiney, en þar sváfum við í tjaldi og ég var ekki með nógu hlýjan svefnpoka,“ segir Saga Garðarsdóttir ferðafélagi Steineyjar og bætir því við að hún hafi ekki sofið sérlega vel þá nótt. „En það er samt svo gott að sofa úti því maður verður svo hress í framan. Eyjan var líka þakin þoku þannig þetta var allt mjög dularfullt, það var kannski meira kósí í skálanum en eyjan var meira töff.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Saga Garðarsdóttir.

Steiney viðurkennir að nafna hennar hafi nú kannski ekki verið sérlega beisin eyja. „Þetta var eyja, en samt var hún eiginlega bara ein strönd, svona sandhóll.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Pulsur grillaðar.

Saga var með alla athygli á matnum. „Okkur langaði að veiða fisk og borða hann, en það beit ekki á hjá okkur sem var ákveðinn skellur. Þannig við urðum að borða pulsur. En þegar maður er í útilegu sættir maður sig við hvað sem er, maður er bara eitthvað „Komdu bara með þessa pulsu og kókómjólk.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stelpurnar tjalda í Steiney.

Næstu sex sunnudagskvöld fara þjóðþekktir Íslendingar í ferðalag um náttúru Íslands með leiðsögumönnunum Brynhildi Ólafsdóttur og Róberti Marshall. Meðal gesta eru Guðni Th. Jóhannesson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Saga Garðarsdóttir, Helgi Seljan, Andri Snær Magnason og Baltasar Kormákur. Fyrsti þáttur af Úti er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld klukkan 20:15.