Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tjáir sig ekki um mál Atla Rafns að svo stöddu

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhús
Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri segist ekki ætla að tjá sig um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Atla Rafns Sigurðarsonar, leikara. Hún vísar á lögmann Leikfélags Reykjavíkur.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Kristínu og Leikfélag Reykjavíkur til að greiða Atla Rafni 5,5 milljónir króna í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Var það mat dómsins að ekki hafi verið farið að reglum þegar Alta Rafni var sagt upp vegna kvartana sem höfðu borist vegna kynferðislegrar áreitni.

Fréttastofa náði ekki tali af Kristínu í gær en hún sendi tilkynningu á fjölmiðla í morgun þar sem hún vísaði á lögmann Leikfélags Reykjavíkur, Sigurð Örn Hilmarsson. Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu svaraði Kristín því til að hún hafi ekki gert upp hug sinn hvort eða hvenær hún tjái sig um málið.
Kristín er einn umsækjenda um stöðu Þjóðleikhússtjóra og verður tilkynnt um ráðninguna á allra næstu dögum. Atli Rafn er fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið.