Tívolíbomba sprakk í bíl

12.01.2015 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Ökumaður og þrír farþegar sluppu með skrekkinn þegar kviknaði í flugeldum í bifreið þeirra í Kópavogi í nótt. Bíllinn varð alelda og telst gjörónýtur. Fólkið sakaði ekki.

Klukkan korter fyrir tvö í nótt barst tilkynning til lögreglu um eld í bifreið og var bíllinn alelda þegar lögregla kom á vettvang. Að sögn Gylfa Sigurðssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar í Kópavogi, höfðu farþegar verið að reykja í bílnum, en þegar henda átti einum stubbnum út, vildi ekki betur til en svo að hann fauk aftur inn, með þeim afleiðingum að glóð komst í flugeld sem var í bílnum. Fólkið fór út úr bílnum, og mátti ekki tæpara standa því flugeldurinn kveikti í heilli skoteldatertu, með tilheyrandi sprengingum. Bifreiðin varð fljótlega alelda, og var flutt af vettvangi eftir að slökkvistarfi lauk.

Gylfi segir algengt að fólk sprengi flugelda, þótt komið sé fram yfir þrettándann, en bendir á að það sé ólöglegt, án sérstakrar undanþágu. Þónokkuð sé um kvartanir vegna hávaða af völdum flugelda. Í að minnsta einu tilviki í vikunni hafi verið kært vegna brots á lögum um skotelda.