Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tíu tróðust undir á kosningafundi

12.09.2019 - 02:16
Mynd með færslu
 Mynd: Ronny K - Pixabay
Tíu létu lífið á kosningafundi Filipe Nyusi, forseta Mósambík, í gær. Fjöldi fólks yfirfyllti lítinn íþróttaleikvang í borginni Nampula. Mikil þvaga myndaðist þegar fólk dreif sig út að fundi loknum, með þeim afleiðingum að tíu tróðust undir. 85 til viðbótar eru slasaðir.

AFP fréttastofan hefur eftir Benjamin Nhumaio, einum fundargesta, að allsherjar ringulreið hafi orðið. Hliðin voru enn lokuð þegar fólk geystist að þeim. Þau voru ekki opnuð fyrr en Nyusi forseti var farinn. Allir vildu komast út á sama tíma að sögn Nhumaio, fólki var hrint niður og tróðst þannig undir. Sex konur og fjórir karlar létu lífið.

Nyusi vonast til að sitja annað kjörtímabil þegar íbúar Mósambík ganga til kosninga 15. næsta mánaðar. Flokkur hans, Frelimo, hefur verið við völd í landinu í yfir fjóra áratugi, og þykir sigurstranglegastur. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV