Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Tíu sagt upp á Drangsnesi

11.12.2012 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Tíu starfsmönnum fiskvinnslunnar Drangs á Drangsnesi hefur verið sagt upp störfum. Starfsfólkinu var tilkynnt þetta fyrir þremur vikum en um tímabundna vinnslustöðvun er að ræða. Ástæðan fyrir uppsögnunum er lítill ýsukvóti ásamt því að staðan á saltfiskmörkuðum sé erfið.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Besta. Íbúar á Drangsnesi er um sjötíu og segir Óskar Torfason, framkvæmdastjóri Drangs, að þeir vilji halda áfram eftir áramót en útlitið sé ekki gott.

Óskar segir í samtali við Bæjarins Besta að lítill ýsukvóti sé að sliga útgerðina en núverandi ýsukvóti var minnkaður um þrettán þúsund frá síðasta ári og er nú 32 þúsund tonn. Hann segir að ef fram haldi sem horfi verði að leggja bát útgerðarinnar, línubátnum Skúla, og þá missa fimm til viðbótar störf sín.