Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Tíu milljónir söfnuðust fyrir geitabúið

08.09.2014 - 06:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Fólk víðsvegar um heim lét samtals um 10 milljónir íslenskra króna af hendi rakna í söfnun til að bjarga stærsta geitabúi landsins frá uppboði.

Jóhanna B. Þorvaldsdóttir, bóndi á Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði, hefur í fjórtán ár unnið frumkvöðlastarf í þágu velferðar geita og geitaræktunar á Íslandi. 

Á Háafelli eru um fjögur hundruð geitur í dag, það er nálægt fjóruðungi alls stofnsins á Íslandi. Starfið hefur kostað sitt. Um 40 milljóna króna skuld hvílir á jörðinni og uppboð á henni var fyrirhugað síðar í þessum mánuði — geitunum hefði þá verið slátrað. 

Söfnun vakti athygli víða

Bandarískir velunnarar íslensku geitarinnar efndu til söfnunar á netinu til að reyna að afstýra uppboðinu — og markmiði söfnunarinnar var náð í gærkvöld þegar um tíu milljónir íslenskra króna höfðu safnast. 

Jóhanna segir framlögin hafa borist hvaðanæva að.

„Þau koma náttúrulega fyrst og fremst frá Bandaríkjunum, en það eru líka Íslendingar, Norðmenn og framlög allstaðar að úr heiminum að einhverju leyti,“ segir Jóhanna sem segist eiginlega orðlaus yfir velgengni söfnunarinnar og full af þakklæti.

Skiptir máli fyrir miklu fleiri

Næstu skref, segir Jóhanna, eru að reyna að nota féð sem safnaðist til að semja við bankann, svo að starfið á Háafelli geti haldið áfram. Ef að til þess kemur að samningar náist segir Jóhanna að það sé ekki bara sigur fyrir Háafell.

„Þetta er náttúrulega ræktunarstarf sem skiptir máli fyrir alla geitaeigendur í landinu, því að það skiptir máli að hafa ræktunarbú þar sem er ekki allt hvað undan öðru,“ segir Jóhanna. „Þannig að ég held að þetta skipti máli fyrir miklu fleiri en bara okkur.“