Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tíu hús vernduð á Borðeyri auk viðbygginga

09.04.2019 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest tillögu Húnaþings vestra um að hluti Borðeyrar verði verndarsvæði í byggð. Í fundargerð byggðarráðs, frá í gær, segir að bréf þess efnis hafi borist sveitarfélaginu 5. apríl og fagnar byggðarráð staðfestingu ráðherrans.

Markmiðið með vernduninni er að staðfesta menningarlegt gildi staðarins og styrkja byggð á Borðeyri þar sem söguleg arfleifð Borðeyrar sem verslunarstaðar fái að njóta sín. Húnahornið greindi fyrst frá.

Tíu hús eru innan þess svæðis sem er verndað, þeirra á meðal eru Riishús, Landssímahúsið og Ólafshús en varðveislugildi þessarra þriggja húsa er metið hátt. 

Borðeyri stendur við Hrútafjörð. Þar bjuggu 16 manns árið 2018 en var staðurinn var eitt sinn kauptún. Áður fyrr var Borðeyri talin til meiriháttar siglinga- og kauphafna en Borðeyri varð löggiltur verslunarstaður í desember 1846. Með fyrstu kaupmönnum staðarins var Richard P. Riis.

Faðir Borðeyrar

Umskipti urðu svo í sögu staðarins þegar Pétur Friðriksson Eggertz, byggði hús á Borðeyrartanganum. Strax árið 1860 byggði hann fyrsta timburhúsið á staðnum, þar sem síðar var opnuð krambúð. Timburhúsið sem Pétur reisti stendur enn og er þekkt undir nafninu Riishús. Pétur var fyrsti fastakaupmaðurinn á Borðeyri og hefur verið nefndur faðir Borðeyrar.

Nánar er hægt að lesa um verndunina á Borðeyri í greinargerð sem sveitarfélagið lét gera um hana. Þá fjallaði Landinn um Riishús, þegar það var gert upp og sögu verslunar í húsinu. 

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Rafnar Benjamínsson, lands - Húnaþing
Svæðið á Borðeyri sem verður verndað Mynd: Jón Rafnar Benjamínsson
larao's picture
Lára Ómarsdóttir