Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tíu frambjóðendur skiluðu inn gögnum

21.05.2016 - 08:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Staðfest er að tíu frambjóðendur til embættis forseta Íslands skiluðu inn gögnum til innanríkisráðuneytisins áður en frestur rann út á miðnætti. Magnús Ingberg Jónsson telur hinsvegar að hann hafi ekki náð að skila tilætluðum fjölda og hyggst kæra framkvæmd kosninganna.

Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson höfðu skilað inn framboðum sínum um kvöldmatarleytið í gærkvöld. Guðrún Margrét Pálsdóttir staðfesti við fréttastofu morgun að hún hefði skilað inn sínum gögnum laust eftir klukkan 22 í gærkvöld. Baldur Ágústsson sagðist í samtali við fréttastofu í hádeginu hafa dregið framboð sitt til baka í gær. 

Magnús sagðist í samtali við fréttastofu ósáttur við að hafa ekki fengið frest til að afla sér vottorðs í Hafnarfirði. Þar hafi menn ekki getað gefið það út áður en fresturinn rann út. Þá telur Magnús að kjörstjórnir hafi brotið á sér í þrígang frá því hann lýsti yfir framboði og hefur ákveðið að leita til lögmanns og kæra framkvæmd kosninganna. 

Innanríkisráðuneytið fer nú yfir framboðsgögnin og greinir frá því innan viku hve mörg framboð teljist gild.   
 
Kosið verður til forseta  25. júní.

 

Fréttin var uppfærð klukkan 10:30

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV