Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tíu flokkar vilja bjóða fram á Akureyri

18.08.2017 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd: Alessandro Grussu - Flickr
Að minnsta kosti tíu stjórnmálaflokkar ætla sér að bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga á Akureyri næsta vor. Viðreisn og Píratar koma nýir inn og er vinna hafin við að finna fólk á lista. Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin stefna einnig á framboð í bænum. Forysta Dögunar hefur ekki ákveðið hvort flokkurinn bjóði fram aftur eftir bágt gengi í síðustu alþingiskosningum.

Sitjandi flokkar halda áfram 

Sex flokkar eiga nú fulltrúa í bæjarráði Akureyrar: Björt framtíð, Framsóknarflokkur, L-listinn, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn. Allir ætla að bjóða fram á ný í komandi sveitarstjórnarkosningum, þó að ekki hafi allir núverandi bæjarfulltrúar ákveðið hvort þeir ætli að gefa kost á sér áfram. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri utan flokka, var ráðinn í ágúst 2010 og hefur því setið í tvö kjörtímabil.

Píratar og Viðreisn í startholunum

Píratar og Viðreisn ætla að bjóða fram á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum í fyrsta sinn. Báðir flokkar náðu mönnum inn á þing í Norðausturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, segir í samtali við fréttastofu að nú sé vinna við að manna lista á Akureyri í fullum gangi, þó að hún sé ekki langt komin.

„Það er bara verið að setja hjólin undir bílinn og við förum svo á fulla ferð með haustinu,” segir Birna. Meginreglan hjá Viðreisn sé að stilla upp á lista og nú sé unnið að því að undirbúa starfið fyrir næstu kosningar og leggja drög að framboði. Birna segir að línur taki að skýrast um miðjan september.

Erla Hlynsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, staðfestir að flokkurinn ætli að bjóða fram á Akureyri og nú sé málefnastarf að fara í gang eftir sumarfrí.

„Það verður auglýst brátt eftir fólki á lista og við leggjum áherslu á að allir sem vilja geta boðið sig fram,” segir Erla.

Hefur fengið tvo pósta í dag vegna Akureyrar

Flokkur fólksins ætlar að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum um allt land. Inga Sæland formaður segir flokkinn setja saman lista á öllum stöðum þar sem grasrótin safnar liði. Spurð hvort það sé útlit fyrir að Akureyri verði einn af þeim stöðum segir Inga: „Það er ekki minna líklegt en svo að ég er búin að fá tvo pósta bara í morgun þar sem er verið að spyrja hvort starfið sé ekki örugglega á fullu á Akureyri.” Inga segir að línur taki að skýrast með haustinu hvar verði boðið fram og að öllum líkindum verði listi á Akureyri.

Íslenska þjóðfylkingin spennt fyrir Akureyri

Íslenska þjóðfylkingin ætlar að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum 2018 og stefnt er að því að bjóða meðal annars fram á Akureyri. Flokkurinn ætlaði að bjóða fram í öllum kjördæmum í síðustu alþingiskosningum, en af því varð ekki. Guðmundur Þorleifsson, nýr formaður flokksins, segir í samtali við fréttastofu að tekin hafi verið ákvörðun um að bjóða fram til sveitarstjórnar í komandi kosningum.

„Þetta er allt á frumstigi, enda nægur tími til stefnu. Það er verið að setja saman hverjir gætu verið sterkir á lista,” segir hann. „Við leggjum áherslu á borgina og Suðurnesin, en okkar maður á Akureyri er að ræða við menn og það kemur í ljós hvað kemur út úr því. Ég er voða spenntur fyrir því að bjóða fram þar og það kemur vel til greina.”

Sumir hætta, aðrir halda áfram

Núverandi oddvitar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, þau Gunnar Gíslason og Sóley Björk Stefánsdóttir ætla að gefa kost á sér áfram, er fram kemur á vef N4. Núverandi oddviti Samfylkingar, Sigríður Huld Jónsdóttir, ætlar ekki að gefa kost á sér ofarlega á lista en Dagbjört Pálsdóttir, ætlar að gefa kost á sér. Ekki náðist í Guðmund Baldvin Guðmundsson, oddvita Framsóknarflokks. 

Preben og Matthías óákveðnir

Preben Jón Pétursson, oddviti Bjartrar framtíðar, segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ekki tekið ákvörðun um framhaldið. Eva Einarsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, segir að flokkurinn ætli að bjóða fram á Akureyri og meira komi í ljós í byrjun september þegar ársfundur verður haldinn. Stillt verður á lista. Matthías Rögnvaldsson, oddviti L-listans, hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann ætli að gefa kost á sér áfram. Hann segir allar líkur á því að L-listinn bjóði áfram fram og línur taki að skýrast með haustinu.

„Við erum mjög svekkt”

Dögun bauð fram á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum 2014 en náði ekki manni inn. Flokkurinn bauð einnig fram í síðustu alþingiskosningum, en náðu ekki nægu fylgi til að fá þingmann. Helga Þórðardóttir, varaformaður Dögunar, segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um komandi sveitarstjórnarkosningar. „Það gekk ekki nógu vel í síðustu kosningum, sem er erfitt og við erum mjög svekkt með það að ná ekki styrkveitingu,” segir hún. „Við erum enn að íhuga hvað við ætlum að gera í komandi kosningum og hvað við höfum orku í.”

Sveitarstjórnarkosningarnar verða laugardaginn 26. maí 2018.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður