Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tíu féllu í hryðjuverkaárás á lögreglustöð

05.11.2019 - 03:40
epa03550331 A photograph made available by the French Army Communications Audiovisual office (ECPAD) on 22 January 2013 shows a Malian soldier taking part in operation Serval to push back the Islamist rebels, Diabali, Mali, 19 January 2013. Malian troops
Nokkuð róstusamt hefur verið í Malí síðustu misseri og vígamenn gert nokkrar mannskæðar árásir á ári hverju.  Mynd: EPA
Minnst tíu manns féllu í árás vígamanna á bækistöðvar lögreglu í norðanverðu Búrkína Fasó í gærmorgun; fimm lögreglumenn og fimm óbreyttir borgarar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hernum. Atlagan að lögreglustöðinni, sem er nærri landamærunum að Malí, stóð klukkustundum saman.

 „Margir tugir vopnaðra manna réðust á bækistöðvar lögreglunnar í Oursi árla mánudagsmorguns,“ hefur AFP-fréttastofan eftir heimildarmanni innan lögreglunnar. „Eftir margra klukkustunda skotbardaga tókst árásarmönnunum að komast inn í bækstiöðvarnar. Því miður, þá misstum við fimm lögreglumenn.“ Fimm starfsmenn einkafyrirtækis, sem voru að störfum á stöðinni þegar árásin var gerð, féllu líka.

Vígasveitir íslamista hafa gert fjölda árása í Malí síðustu ár, sem kostað hafa hundruð mannslífa og hrakið um hálfa milljón manna á flótta.