Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tíu börn hafa smitast af e. coli

08.07.2019 - 14:56
Mynd með færslu
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.  Mynd:
Tíu börn hafa smitast og veikst af e.coli bakteríunni. Grunur um uppruna smits beinist að ákveðnum stað í uppsveitum Árnessýslu. Þetta segir Katrín Guðjónsdóttir, staðgengill forstöðumanns neytendaverndarsviðs Matvælastofnunar. Katrín segir að bakterían hafi að öllum líkindum borist með matvælum eða af snertingu við dýr. Gripið hafi verið til ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara smit. 

Ekkert bendi til þess að bakterían hafi borist með drykkjarvatni. Katrín segir að enn sé verið að rannsaka sýni sem hafi verið tekin. Málið sé unnið í samvinnu við sóttvarnarlækni og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hjá embætti landlæknis, sagði í samtali við fréttastofu, nú fyrir stuttu að tíunda smitið hefði verið staðfest í dag. Börnin tíu séu á aldrinum fimm mánaða til 12 ára. Eitt barn liggi á Barnaspítala Hringsins. Það sé á batavegi. Læknar fylgist með líðan allra barnanna. Þórólf rekur ekki minni til að svo margir hafi smitast í einu af e. coli bakteríu. 

Af hverju veikjast börn en ekki fullorðnir?

„Þetta er yfirleitt sjúkdómur sem kemur fram hjá börnum. Einstaklingar geta fengið þessa bakteríu í sig án þess að veikjast. Börn fá frekar þessi alvarlegu einkenni. Af hverju það er, það vitum við ekki nákvæmlega,“ segir Þórólfur.

Smitleiðirnar eru margar

E. coli getur smitast milli manna. „Það er frekar sjaldgæft. Yfirleitt eru þetta bakteríur sem koma í mann úr matvælum, vatni hugsanlega, ógerilsneyddri mjólk og svo úr menguðum matvælum frá úrgangi frá dýrum eða af beinni snertingu við dýr,“ segir Þórólfur. „Byrjunareinkenni er niðurgangur sem breytist í blóðugan og slímugan niðurgang. Síðan byrja þessi alvarlegu einkenni eins og nýrnabilun og blóðleysi,“ segir Þórólfur.