Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tíst Trumps felur í sér lögbrot

05.01.2020 - 23:44
epa08100829 US President Donald J. Trump speaks during the Evangelicals for Trump Coalition Launch, at the King Jesus International Ministry in Miami, Florida, USA, 03 January 2020. The event will bring together Evangelicals from across the nations who support President Trump's re-election. According to reports, President Trump defended the drone strike that killed Iran's Quds Force leader Qasem Soleimani and Iraqi militia commander Abu Mahdi al-Muhandis on 03 January 2020.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist ekki þurfa samþykki Bandaríkjaþings fyrir árásum. Þingið verði að láta sér duga hótanir hans á Twitter sem upplýsingagjöf um árásir Bandaríkjahers ef Íranir láta til skarar skríða. Lagaprófessor við Yale háskólann í Bandaríkjunum segir forsetann sekan um fjölda lögbrota ef hann lætur verða af því sem hann greinir frá á Twitter.

Trump skrifaði í kvöld að færslur hans á samfélagsmiðlum verði öll upplýsingagjöf sem hann veiti þingmönnum ef Íranir gera árás á Bandaríkjamenn eða á bandarísk skotmörk. „Bandaríkin svara hratt og af fullri hörku, og jafnvel af enn meiri hörku en þarf," skrifar Trump. Hann kveðst ekki þurfa að greina þinginu frá væntanlegum hernaðaraðgerðum, en hann sé búinn að því hér og nú. 

Lagaprófessorinn Oona Hathaway segir færslu forsetans fela í sér fjölda lögbrota. Í fyrsta lagi geti forsetinn ekki veitt þinginu upplýsingar um hernaðaraðgerðir með færslu á Twitter. Í öðru lagi sé fullyrðing hans um að hann þurfi ekki að greina þinginu frá væntanlegum hernaðaraðgerðum röng. Í hvert sinn sem forsetinn ákveður að beita hernum til árásar verður hann að greina þinginu frá því með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Þá segir hún hugmynd forsetans um að svara árásum Írana með enn meiri hörku vera í trássi við alþjóðalög. Þar segir að allar hernaðaraðgerðir sem gerðar eru í sjálfsvörn veðri að vera nauðsynlegar og í samræmi við þá ógn sem barist er gegn.

Leiðtogar Demókrata á Bandaríkjaþingi eru æfareiðir yfir því að hafa ekki fengið upplýsingar um árásina fyrr en eftir að hún var gerð. Raunar fengu þingmenn upplýsingarnar ekki formlega fyrr en tveimur sólarhringum eftir árásina. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún ítrekaði beiðni sína til stjórnvalda um að hafa þingið með í ráðum varðandi allar hernaðaraðgerðir gegn Íran. Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, sagðist hafa áhyggjur af því að Trump væri að draga Bandaríkin í eitthvað sem forsetinn kallar sjálfur endalaust stríð í Miðausturlöndum.

Íranir hafa hótað hefndum vegna dráps Bandaríkjahers á hershöfðingjanum Qasim Soleimani. Hann var yfirmaður Quds sérsveitar íranska byltingarvarðliðsins, og einn æðstu ráðamanna í Íran. Bandaríkin gerðu loftárás á bílalest hans við alþjóðaflugvöllinn í Bagdad í Írak. Tvær flugskeytaárásir hafa verið gerðar á Græna hverfið í Bagdad síðan, en þar er fjöldi opinberra bygginga á borð við bandaríska sendiráðið.