Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tíminn fer mjúkum höndum um Nútíma Chaplins

Mynd: RÚV / RÚV

Tíminn fer mjúkum höndum um Nútíma Chaplins

16.11.2019 - 10:46

Höfundar

„Tíminn hefur verið þessari mynd afskaplega hliðhollur, þegar ég sá hana sem unglingur var ég ekki í nokkrum vafa að þarna væri meistaraverk á ferðinni,“ segir Karl Ágúst Úlfsson í Bíóást kvöldsins um Nútímann eftir Chaplin sem er frá árinu 1936.

Karl Ágúst segir hana eina af sínum uppáhalds myndum og líklega þá mynd sem hann hefur horft á oftast. „Ég hana fyrst í Hafnarbíó þegar ég var 13 ára í kringum 1970. Bíóið var í bragga sem stóð við Barónsstíg og það var stórkostleg upplifun.“ Hann þekkti Chaplin áður og hafði séð stuttu myndirnar hans og þekkti þess vegna karakterinn hans, „umrenninginn“. „Mér fannst margt mjög fyndið sem ég hafði séð, en þetta var eitthvað alveg nýtt. Myndin var í fullri lengd og þarna tekur þessi trúður og gamanmeistari allt í einu afstöðu, til dæmis gegn kapítalisma og vélvæðingu samfélagsins. Og hann tekur afstöðu með, eins og reyndar alltaf, lítilmagnanum.“

Myndin er líka merkileg segir Karl Ágúst fyrir þær sakir að Chaplin hafði þrjóskast við að ganga í lið með þeim sem eingöngu vildu talmyndir, og var framan af mjög tortrygginn gagnvart þeim. „Þegar árið 1935 eru talmyndirnar orðnar mjög ríkjandi. Hann ætlar upphaflega að gera talmynd og er búinn að skrifa samtöl í nánast allar senur í handriti. En á miðri leið áttar hann sig á því að þessi persóna, umrenningurinn sem heimsbyggðin elskar, hann á ekki að tala. Þættirnir í fari umrenningsins sem fólk hrífst af, þeir lifa bara ekki af þegar persónan er farin að segja orð og setningar.“

Uppáhalds atriði Karls í myndinni er þegar parið fer á hjólaskauta í vöruhúsinu, en tólf vikur fóru í upptökur á vöruhússkafla myndarinnar og átta dagar bara í hjólaskautasenuna. Þá samdi Chaplin sjálfur tónlistina í myndina, síðar var gerður texti við stefið Smile og Nat King Cole gerði það vinsælt. En myndin hlaut ekki einróma lof þegar hún kom út. „Sumum mislíkaði það að Chaplin sem fyrst og fremst átti að vera fyndinn gerði kröfu um að vera tekinn alvarlega, að skoðanir hans á þjóðfélagsmálum ættu erindi við almenning. Þess vegna var skrifað sumt frekar ljótt um myndina,“ segir Karl. „Hún er líka óhefðbundin í uppbyggingu, ekki upphaf, miðja og endir, heldur meira eins og nokkrar stuttar myndir hver á eftir annarri. En tíminn hefur verið henni afskaplega hliðhollur.“

Tengdar fréttir

Leiklist

Smitandi leikgleði í hreinræktuðum farsa

Leiklist

Einræðisherrann á alltaf erindi

Menningarefni

Kynntist Chaplin á öskuhaugunum

Kvikmyndir

Bíóást: Stórkostlega merkileg og dapurleg