Tímabært að ljúka við losun fjármagnshafta

05.04.2018 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að það sé mat bankans að efnahagslegar forsendur séu til að taka lokaskrefið um losun fjármagnshafta sem voru að miklu leyti losuð í mars í fyrra. Þetta kom fram í ávarpi Más á ársfundi Seðlabankans síðdegis.

„Til að losna undan núverandi undanþágum alþjóðasamninga um óheftar fjármagnshreyfingar, bæði gagnvart EES og OECD, þarf að afnema þessar takmarkanir og er eðlilegt að að því verði stefnt svo fljótt sem auðið er. Það er mat Seðlabankans að efnahagslegar forsendur séu til að taka lokaskrefið í losun fjármagnshafta. Það á líka við um aflandskrónur en þær nema nú um 3,5 prósenti af landsframleiðslu en voru rúm 40 prósent eftir að fjármagnshöft voru fyrst sett á undir árslok 2008. Það verður hins vegar ekki gert nema með lagabreytingu,“ sagði Már í ávarpi sínu.

Hann telur hins vegar ekki forsendur til að hefja lækkun bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður, sem sett var á í júní 2016. Vegna hás raungengis sé ekki heppilegur tími til að taka áhættu umfram það sem undirliggjandi efnahagsaðstæður gefa tilefni til. „Gangi spár eftir munu aðstæður til að lækka bindiskylduna batna á komandi misserum þar sem búist er við að spenna haldi áfram að slakna hér á landi og að vextir í umheiminum fari hækkandi.“

Eigið fé bankans lækkaði um helming

Þórunn Guðmundsdóttir, formaður bankaráðs, greindi frá því í sínu ávarpi að gjaldeyrisforði hafi í árslok í fyrra numið 687 milljörðum króna og að hann hafi dregist saman um tæpa 130 milljarða á síðasta ári, aðallega vegna uppgjörs við aflandskrónueigendur og endurgreiðslu erlendra skulda ríkissjóð. Samkvæmt rekstrarreikningi hafi tap af rekstri bankans verið rúmlega 23 milljarðar króna á árinu 2017 en tæplega 35 milljarðar króna árið á undan. Eignir bankans námu um 764 milljörðum króna í lok 2017 en eigið fé lækkaði úr 44 milljörðum í 22 milljarða króna.

Þórunn segir að stefnt sé að því að ljúka slitum á Eignasafni Seðlabanka Íslands, eða ESÍ ehf., Hildu og SPB sem hófust á síðasta ári. Þórunn segir að á þeim átta árum sem liðin eru frá stofnun ESÍhefur ESÍ gert upp að fullu lán sitt við Seðlabankann. „Greitt um 69 milljarða króna í vexti og sömu upphæð í arð til Seðlabankans auk þess sem greiddir hafa verið tæplega 20 milljarðar króna í skatta til ríkissjóðs. Félagið hefur því skilað samtals um 157 milljörðum króna til Seðlabankans og ríkissjóðs,“ segir Þórunn. 

„Fyrirliggjandi spár fela í sér áframhaldandi ágætan hagvöxt og „mjúka lendingu“ þjóðarbúsins. Þessar horfur eru hins vegar óvissar og ýmis áhætta gæti raungerst bæði innanlands og utan landsteinanna, en óvissuna er ekki síður þar að finna um þessar mundir. Þá er mikilvægt að töluvert svigrúm er í vaxtastiginu og stórum gjaldeyrisforða til að bregðast við óhagstæðri þróun,“ sagði Már. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sínu ávarpi að á þeim áratug sem liðinn er frá hruni hafi margt gengið vel þó það hafi verið óróatímar í íslenskum stjórnmálum. Hún sagðist telja að marg hafi breyst bæði í efnahagsmálum þjóðarinnar og í þjóðarsálinni. Nú sé kominn tími til að horfa fram á við, vinna úr reynslunni og stefna upp. „Nýsamþykkt fjármálastefna lýsir góðri stöðu opinberra fjármála. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir ákveðnum áskorunum sem felast í því að hagvöxtur hefur gefið hraðar eftir en opinberar spár gerðu ráð fyrir og þá er rétt að ríkið komi með innspýtingu til að skapa viðspyrnu í hagkerfinu.“ 

 Tenglar eru á ræður allra þriggja í textanum. Einnig má nálgast ræðurnar á vefsíðu Seðlabanka Íslands

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi