Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tilraunir með hringi, ferhyrninga og línur

Mynd:  / 

Tilraunir með hringi, ferhyrninga og línur

04.03.2019 - 10:57

Höfundar

Hugsun listmálarans Eyborgar Guðmundsdóttur flæðir af myndflötum listakonunnar og út í sýningarrýmið á vel heppnaðri sýningu sem Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Heba Helgadóttir hafa komið saman á Kjarvalsstöðum. Þetta er mat Ingu Bjarkar Bjarnadóttur, myndlistarrýnis Víðsjár á Rás 1, en umfjöllun hennar má heyra hér að ofan.

Inga Björk Bjarnadóttir skrifar: 

Í vestursal Kjarvalsstaða stendur nú yfir sýning á verkum strangflatarlistamannsins Eyborgar Guðmundsdóttur. Sýningin ber yfirskriftina Hringur, ferhyrningur og lína og er fyrsta yfirlitssýningin á verkum listamannsins. Nafn Eyborgar hefur ekki farið hátt í íslensku samfélagi þrátt fyrir að hún hafi átt merkan feril og verið einn þeirra strengja sem tengir íslenska listasögu við suðupott módernismans í Evrópu. Eyborg Guðmundsdóttir var fædd árið 1924 og átti stuttan feril að baki þegar hún lést árið 1977. Þrátt fyrir það telja sýningastjórarnir að eftir hana liggi um 200 verk svo segja má að Eyborg hafi verið iðin þau 15 ár sem hún fékkst við listsköpun sína.

Tryggð við geómetríuna

Verk Eyborgar eru í strangflatarstíl, svo kölluð geómetrísk abstraktverk, en falla einnig mörg hver í flokk op listar. Í op list eru sköpuð áhrif með formum, litum og andstæðum sem gerir auganu erfitt að leysa úr myndfletinum. Þetta gerir það að verkum að allt virðist vera á fleygiferð í myndfletinum og stundum er óbærilegt að horfa á verkin lengi. Eyborg var trygg geómetrískri abstraktlist frá fyrsta degi ferils síns til hins síðasta. Þrátt fyrir það er heilmikil tilraunamennska í verkum Eyborgar og þau eru síður en svo einsleit. Enginn vafi leikur á því að Eyborg var óhrædd við að prufa sig áfram með ólíka miðla en á sýningunni má sjá málverk af ólíkum stærðum, þrívíðar lágmyndir sem sýna bæði hugvit og tilraunamennsku, hangandi skúlptúra, vefnað, klippimyndir og grafíkverk sem prýddu bækur, tímarit og sýningarskrár svo eitthvað sé nefnt. Hringur, ferhyrningur og lína er yfirgripsmikil sýning með fjölbreyttu úrvali verka sem koma frá opinberum söfnum víða um land, en athygli vekur að stór hluti verkanna er í einkaeigu.

Úr hringiðu íslensks listalífs til Parísar

Sem ung kona var Eyborg í hringiðu íslenskrar myndlistar á eftirstríðsárunum. Hún bjó undir sama þaki og Valtýr Pétursson, sem var fóstursonur bróður hennar, og heimilið sóttu Þorvaldur Skúlason og Gunnlaugur Scheving meðal annarra. Eyborg hlaut einnig leiðsögn og handleiðslu Dieter Roth, sem hvatti hana til áframhaldandi menntunar erlendis. Eyborg flutti til Parísar í lok 6. áratugarins til að hefja formlegt listnám. Hún ílengdist þó ekki í akademíunni og hóf sjálfstætt nám í París; enda komin á fertugs aldur og stíll hennar þegar orðinn fastmótaður. Í París komst Eyborg í kynni við listamenn sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á hana. Þar á meðal voru upphafsmaður op listarinnar, Victor Vasarely, og Georges Folmer, frumkvöðull í geómetrískri abstraktlist. Folmer var einnig forsprakki listamannahópsins Groupe Mesure sem Eyborg tilheyrði og sýndi með víðsvegar um Evrópu. Í París kynntist hún einnig hinum argentíska Julio Le Parc sem með op listaverkum sínum hafði mikil áhrif á Eyborgu. Í verkum Le Parc breytir staðsetning og staða áhorfandans ásýnd verkanna. Þetta veitti Eyborgu innblástur fyrir þrívíðum lágmyndum, en slíkt verk hafa eflaust einhverjir hlustendur séð í glugga Mokka kaffi á Skólavörðustíg, en þar hefur verk eftir Eyborgu hangið frá árinu 1966 þegar hún hélt þar einkasýningu.

Abstraktsjón með trúarlegu ívafi

Þó verkin séu abstrakt, og í raun geti hver manneskja frá sínum sjónarhorni, lagt túlkun og merkingu í þau, hafa mörg verkanna áhugaverða titla sem geta gefið vísbendingar um hvaðan listamaðurinn sótti innblástur sinn og hugmyndir. Til að mynda eru þrjú verk á sýningunni sem öll hafa trúarlegar vísanir í titlum sínum. Þriggja málverka sería sem nefnist triptych — orð sem á uppruna sinn í grísku þar sem „tri“ merkir þrír og „ptysso“ merkir að brjóta saman. Við þekkjum triptych helst í formi altaristafla; þrír fletir sem segja sögur úr Biblíunni, gjarnan á hjörum svo hægt er að leggja vængina að miðjufletinum og loka. Í módernismanum hefur formið auðvitað líka verið notað, til dæmis í hinu víðfræga verki Francis Bacon, Stúdíur af Lucian Freud, en vegna uppruna triptych formsins í trúarlegu samhengi og vegna stöðu þessa forms frá frumkristni verður illa fram hjá þessari tengingu litið. Það er ekki síst í ljósi þess að á sýningunni er verki Eyborgar, Triptych, stillt upp við hlið skúlptúrs sem hangir í loftinu og hefur titilinn Krossinn — abstrakt form sem þó hefur lögun kross. Þar næst kemur verk sem nefnist Altaristafla, abstrakt verk þar sem ferhyrningar dofna úr skærum rauðum lit, verða fölari og gulari uns komið er að miðjunni. Þar er bjartur, hvítur kassi sem minnir einna helst á guðlega birtu sólstafa. Þá hannaði Eyborg forsíðu fyrir tímarit Kvennréttindafélags Íslands sem kom út þann 19. júní 1965, og segir þar að verkið kallist „Hugmynd að kapellu gólfi“, en verkið var einnig sýnt á franskri kirkjulistahátíð, Salon d’Art a Sacré, sem Eyborg tók tvívegis þátt í á 7. áratugnum. Það er því ekki úr lofti gripið að skoða þessar trúarlegu vísanir í abstraktverkum hennar og velta fyrir sér hvernig Eyborgar kapella, á pari við Rothko kapelluna í Texas, myndi líta út.

Af myndfleti og inn í rýmið

Sýningarstjórar eru þær Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Heba Helgadóttir en sýningarhönnun var í höndum Ingibjargar. Það verður að segjast að Ingibjörg, sem er myndlistarmaður, er afar lunkinn sýningarhönnuður en hún segir rýmið óð til Eyborgar. Settir hafa verið upp tveir svartir bráðabirðaveggir í vestursalnum, sem ská skjóta sér í rýminu. Þegar staðið er í öðrum hvorum enda rýmisins verður svipuð sjónblekking og finna má í myndfleti Eyborgar. Loftið á Kjarvalsstöðum, eitt af einkennum hússins, er stundum sagt of þungt og íburðarmikið fyrir listsýningar. Hins vegar tóna skásettir veggirnir, svartir sýningarkassarnir og geómetrískt loftið á Kjarvalsstöðum fullkomlega við verk Eyborgar. Þetta rímar líka ágætlega við eina grundvallarhugsun hjá Eyborgu og félögum hennar í Groupe Mesure um að byggja brýr á milli byggingalistar og myndlistar, mikilvægi þess að tengja listina við samfélagið og að listin væri í opinberu rými en ekki lokuð inni á söfnum og í heimahúsum eins og Eyborg segir í viðtali við tímarit Kvennréttindafélags Íslands árið 1965. Þannig flæðir abstraktsjónin af myndfleti Eyborgar og yfir í hönnun Ingibjargar á sýningarrýminu þar sem haldið er áfram með tilraunir með hringi, ferhyrninga og línur.

Stuttur en afkastamikill ferill

En hvað ætli valdi því að hróður Eyborgar var ekki jafn mikill og búast hefði mátt við vegna tengsla hennar við mikilsmetna listamenn á Íslandi, við suðupott listar í París og tilkomumikils sýningarferils hennar erlendis? Fyrir það fyrsta hófst ferill Eyborgar seint. Í tólf ár sinnti hún skrifstofustörfum hjá Búnaðarfélagi Íslands en slökkti þorstann fyrir listinni í frítíma sínum. Þá spannaði ferill hennar aðeins 15 ár, en Eyborg lést aðeins 53 ára að aldri. Þegar Eyborg snéri til Íslands frá París, árið 1966, hafði geometríska abstraktlistin líka mýkst talsvert og við tekið hin svo kallaða ljóðræn abstraktlist — en Eyborg hélt alltaf tryggð við formfestu strangflatalistarinnar. Síðustu ár og áratugi hefur verið bent á að merkar listakonur vanti á hinar karllægu blaðsíður listasögunnar og þær dregnar fram í sviðsljósið, stundum öldum og áratugum eftir andlát þeirra. Konum hefur alla tíð verið haldi frá listamannshlutverkinu — meinaður aðgangur að skólum, þær lattar til verka og margar þeirra sem þó komust áfram, gleymdust. Og oft er umræðan um þær ansi skondin. Talað er um Kandinsky sem upphafsmann abstraktsins en sjaldan minnst á Hilmu af Klint í þeirri umræðu. Artemisiu Gentileschi er lýst sem „kvenkyns Caravaggio“ þó hún hafi hreint ekki verið síðri listmálari en hann. Talað er um Mary Cassatt og Berthe Morisot sem „konurnar í impressjónismanum“. Gombrich, sem frætt hefur almenning um listasögu síðustu áratugi og selt yfir 7 milljónir eintaka af bók sinni Saga listarinnar, nefnir ekki eina kvenkyns listakonu á nafn. Þegar minnst er á konur í listasögunni er það oft nefnt í samhengi við hverjum þær sváfu hjá, voru giftar eða tengdust fjölskylduböndum. Þessi yfirlitssýning á verkum Eyborgar er afar vel heppnuð og sýningarhönnun Ingibjargar frábær — en það sætir furðu að Eyborg hafi í gegnum tíðina ekki fengið meiri athygli en raun ber vitni og því fagna ég að þessum merka abstrakt listamanni sé gert hátt undir höfði.

Sýningin Hringur, ferhyrningur og lína stendur yfir til 28. apríl á Kjarvalsstöðum.