Kristinn segir Jóhannes þegar hafa orðið fyrir mannorðsárásum opinberlega. „Það er hins vegar nokkuð sem hefur undir kraumað og ég hef vitneskju um sem er svo ógeðfellt að manni verður eiginlega bumbult,“ sagði Kristinn í Morgunútvarpinu á Rás 2. Kristinn svaraði því ekki hvað þetta væri en sagði að blaðamenn sem þekktu til, meðal annars hjá RÚV, myndu upplýsa um það þegar þeir væru tilbúnir til þess. Hann sagði að þarna væri um að ræða eitthvað sem hefði þegar verið reynt að dreifa um Jóhannes. „Í ófræingarherferð sem hefur borist frá þessum samstarfsaðilum Samherjaforystunnar í Namibíu og hér innanlands,“ sagði Kristinn.
Í yfirlýsingu frá Samherja í gær er ábyrgðinni varpað á Jóhannes. Kristinn segir að fullyrðingar í yfirlýsingunni haldi ekki vatni. „Eins og fram kemur í gögnunum á WikiLeaks.org hafði hann bara afskaplega takmarkaða prókúru í þessu namibíuverkefni. Allar stórar fjármálatilfærslur fara í gegnum fjármálastjóra og yfirstjórn fyrirtækisins hér á Íslandi. Það er ekki hann sem er að millifæra af laumumreikningum Samherja yfir á laumureikning I Dubai. Hitt sem sýnir hvernig þetta andsvar heldur engan veginn vatni að þá voru greiðslur að berast allt fram á þetta ár. Tveimur og hálfu ári eftir að Jóhannes fer frá fyrirtækinu. Þannig að þetta heldur engu vatni og tilraunir til að blása upp einhverjum moðreyk um að Samherjaelítan sé einhverskonar fórnarlamb Jóhannesar í þessu máli nær ekki nokkurri átt og ætti í raun ekki að birtast athugasemdarlaust í neinum fjölmiðli,“ sagði Kristinn.