
Tilraunasiglingar Akraborgar næsta sumar
Reykjavíkurborg og Akranes skipuðu í starfshópinn í lok maí til að kanna forsendur fyrir rekstri nýrrar Akraborgar sem færi á milli Reykjavíkur og Akraness. Með skipan starfshópsins var fylgt eftir viljayfirlýsingu á milli Reykjavíkur og Akraness frá því í janúar um flóasiglingar. Faxaflóahafnir létu vinna frumskýrslu um málið sem borgarráð fól skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar borgarinnar að yfirfara. Hlutverk starfshópsins var að skoða ábendingar hennar.
Siglingin tók innan við hálftíma
Allar samgöngur með meðgjöf
Kristín Soffía segir að í skýrslunni sé lagt til að farið verði í útboð á siglingunum. Aðspurð um hvort ferjusiglingarnar fái styrki frá sveitarfélögunum segir hún að gert sé ráð fyrir að þörf sé á meðgjöf með rekstrinum. „Allar samgöngur eru með meðgjöf hér á landi, sama hvar ber niður,“ segir Kristín Soffía. „Til samanburðar má vekja athygli af því að sveitarfélög fá engar tekjur af olíugjaldi en Reykjavík ver fjórum milljörðum á ári í nýlagningu og viðhald vegakerfisins ári.“
Hún segir að ferjan gæti breytt miklu til dæmis fyrir nemendur á Akranesi sem sæki skóla í Reykjavík og næsta nágrenni og geti einnig stækkað svæðið sem kynnt er fyrir ferðamönnum. Þannig gæti Akranes farið að keppa við til dæmis Hveragerði um ferðamenn. Ferjan gæti líka aukið ferðalög innanlands, segir Kristín Soffía, og tekur sem dæmi að um 20 prósent heimila í miðborginni séu bíllaus. Þá geti ferjan boðið upp á spennandi dagsferðir fyrir hjólreiðamenn sem gætu hjólað Hvalfjörðinn en farið til baka með ferjunni.
Kristín Soffía segir að starfshópurinn hafi verið í samstarfi við ýmsa aðila og fengið fólk á sinn fund. Vinnu við skýrsluna sé lokið og aðeins eigi eftir að setja endapunktinn á hana. „Stefnt er að því að skila skýrslunni í næstu viku. Allavega fyrir jól.“