Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tilraunasending neyðarboða barst í 94% síma í Grindavík

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Þrátt fyrir að enn mælist landris við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga hefur jarðskjálftavirkni minnkað við Grindavík. Fjórtán skjálftar mældust á svæðinu í nótt sem flestir voru um eða rétt yfir einn að stærð. 

Neyðarlínan getur sent boð í farsíma á afmörkuðum svæðum ef þörf krefur. Slíkt var prófað í Grindavík á mánudag og kom þá í ljós að skeytin bárust í 94% síma á svæðinu. Skilaboðin eiga að berast í öll númer sem hafa opið fyrir móttöku skilaboða, hvort sem þau eru íslensk eða erlend. Hins vegar er þó alltaf möguleiki að einhver skeyti komist ekki til skila segir Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. Því skipti máli að huga að náunganum.

„Reynslan er að flestir eru í grennd við einhvern. Jafnvel þessi 5% sem fá ekki skeytin, eru oftast samferða einhverjum öðrum. Ef við erum nálægt einhverri vá og sjáum að við þurfum að fara að flýta okkur, þá er allt í lagi að horfa í kringum sig og hvort einhver sé grunlaus,“ sagði Tómas í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.

Tómas greindi frá því að Neyðarlínan sé nú að koma upp nýju kerfi. Með því er til dæmis hægt að senda skilaboð á íslensku í íslensk landsnúmer, pólsk skilaboð í pólsk landsnúmer og kínversk landsnúmer. Skilaboð á ensku eru svo send í önnur erlend landsnúmer. Ekki hafi verið hægt að brjóta hlutina þannig niður í gamla kerfinu.