Hægt verður að fylgjast með afhjúpun tilnefninga til Edduverðlaunanna 2020 á RÚV.is frá klukkan 10:00 til 12:30 í dag. Tilkynnt verður á hálftíma fresti hvaða sjónvarps- og kvikmyndaverk keppa um verðlaunin í ár.
Tilnefnt verður í 26 flokkum auk heiðursverðlauna og sjónvarpsefnis ársins. Val á sjónvarpsefni ársins fer fram í opinni kosningu á RÚV.is sem hefst á mánudag 9. mars.
Edduverðlaunahátíðin í ár verður haldin í Origohöllinni, Valsheimilinu Hlíðarenda 20. mars.
Edduverðlaunin eru á vegum Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar sem var stofnuð árið 1999 og er sameiginlegur vettvangur hagsmunafélaga kvikmyndagerðarmanna í landinu til að stuðla að eflingu íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeirans.