Tillögurnar skref í rétta átt segja smábátaeigendur

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir tillögur um verkefnisstjórnar um krosseignatengsl í sjávarútvegi, sem sjávarútvegsráðherra kynnti ríkisstjórn í fyrradag, vera skref í rétta átt. Verði þær að lögum verða hjón og börn þeirra skilgreind tengdir aðilar og þá séu líka tengsl gegni sama fólk lykilstöðum hjá báðum fyrirtækjum. 

Örn Pálsson framkvæmastjóri Landssambands smábátaeigenda gagnrýndi síðast í nóvember að hjón skyldu ekki teljast tengdir aðilar og heldur ekki að ef forstjóri eins sjávarútvegsfyrirtækis sé stjórnarformaður annars. Nú er útlit fyrir að þetta breytist: 

„Þær eru spor í rétta átt eins og var ætlun löggjafans alltaf að skilgreina það þannig að hjón væru tengdir aðilar að það léki ekki nokkur vafi á því.“

Gætu dregið úr samþjöppun í sjávarútvegi

Örn segir að til séu dæmi um hjón með sitthvort kvótafyrirtækið skráð á sig. Sama sé um lykilstarfsmenn og þess háttar tengingar: 

„Fljót á litið sýnist mér að það geti verið í nokkrum tilvikum. Og þá þurfi þau fyrirtæki að skoða sín mál betur og eignarhaldið að breytast og að þá verði samþjöppunin ekki eins mikil eins og hefur verið og að muni þá hægja á samþjöppuninni.“

Hámarkskvóti bíður lokaskýrslu

Verkefnisstjórnin tekur ekki í þessum tillögum afstöðu til hámarksaflahlutdeildar eða kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Um það fjallar hún í lokaskýrslu sinni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.