Tillögur VG í samræmi við kosningaloforð

13.12.2016 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að tillögur þeirra um tekjuöflun séu allar í samræmi við yfirlýsingar þeirra í aðdraganda kosninga. Þau vilji til dæmis leggja auðlegðarskatt á stóreignafólk, en hversu miklu myndi sá skattur skila.

„Hann hefði skilað tíu milljörðum, teljum við, á eignir verulega yfir því marki sem var síðast og hugmyndin var þá að undanskilja fasteignir. Við vorum í raun og veru bara að leggja til leiðir í takt við það sem við sögðum fyrir kosningar þar sem við sögðumst ekki vilja hækka skatt á almenning í landinu heldur frekar á fjármagnið þar sem það væri að finna,“ segir Katrín.  

Fulltrúar allra flokkanna sjö sem sæti eiga á Alþingi mæta í beina útsendingu í Kastljósi í kvöld til að ræða stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum. Enn á eftir að staðfesta hver mætir frá Framsóknarflokki en frá Pírötum kemur Birgitta Jónsdóttir, Logi Einarsson frá Samfylkingu, Katrín Jakobsdóttir frá VG, Óttarr Proppé frá Bjartri framtíð, Guðlaugur Þór Þórðarson frá Sjálfstæðisflokki og Jóna Sólveig Einarsdóttir frá Viðreisn. Útsending hefst klukkan 19:35.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi