Tilkynnti framboð um miðjan mánuðinn

25.09.2012 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tilkynnti opinberlega um framboð sitt í efsta sæti á lista í norðausturkjördæmi tæpri viku áður en yfirlýsing um það barst fjölmiðlum.

Hann segir það því rangt að hann hafi vitað af framboði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í kjördæminu þegar hann tilkynnti framboð sitt.

Upp er komin undarleg deila innan Framsóknarflokksins eftir að Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýstu báðir yfir að þeir sæktust eftir að leiða lista Framsóknarmanna í norðausturkjördæmi. Höskuldur sendi tilkynningu til fjölmiðla á föstudag, 21. september, en daginn eftir barst tilkynning frá Sigmundi Davíð. Hann og Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri flokksins, hafa báðir fullyrt í fjölmiðlum að Höskuldur hafi vitað af því að formaðurinn hyggðist færa sig yfir í kjördæmið, Hrólfur hafi greint honum frá því örfáum dögum fyrr. Þar af leiðandi sé Höskuldur að bjóða sig fram gegn formanninum. Þessu hafnar Höskuldur og segir þá fara með rangt mál.

Höskuldur tilkynnti ákvörðun sína að sækjast eftir oddvitasætinu þann 15. september á bæjarmálafundi Framsóknarmanna á Akureyri. Þetta staðfestir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi flokksins á Akureyri. „Höskuldur var með okkur framsóknarmönnum á fundi hér á Akureyri 15. september þar sem hann greindi okkur frá því að hann hyggðist sækjast eftir oddvitasæti listans.“

Á þeim tíma hafði ekkert komið fram um það að formaðurinn hyggðist jafnframt bjóða sig fram í kjördæminu. Höskuldur segir í samtali við fréttastofu RÚV að dregist hafi að senda tilkynningu á fjölmiðla fram á föstudag. Hann hafni því alfarið rangfærslum formannsins og framkvæmdastjórans og harmi að málið sé komið í þennan farveg. Spurður hvort kominn sé upp trúnaðarbrestur milli hans og framkvæmdastjórans vill hann ekki tjá sig um það.

Ákvörðun um val á lista flokksins í kjördæminu verður tekin á kjördæmisþingi í lok október en í þessu kjördæmi er yfirleitt valið á lista á tvöföldu kjördæmisþingi eða með lokuðu prófkjöri. 

Þegar Sigmundur Davíð flytur sig um kjördæmi losnar oddvitasæti í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Í morgun tilkynnti Frosti Sigurjónsson að hann sæktist eftir því sæti. Frosti var forstjóri Nýherja og stjórnarmaður CCP. Hann er stjórnarmaður í Heimssýn og var í Advice hópnum sem barðist gegn Icesave-samkomulaginu.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi