Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði umtalsvert

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um kynferðisbrot fjölgaði talsvert 2018 frá fyrra ári, eða um tuttugu og þrjú prósent. Um það bil helmingur þeirra var vegna nauðgana.

Þetta kemur fram í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrot árið 2018. Tilkynningum um hegningarlagabrot fjölgaði um tæplega þrjú prósent en lögreglu bárust alls 9.597 tilkynningar um hegningarlagabrot í fyrra. Þar af voru tæplega helmingur tilkynninganna vegna auðgunarbrota, líkt og undanfarin ár.

Þá bárust rúmlega þrettán hundruð tilkynningar um ofbeldisbrot í fyrra. Ekki hafa jafn margar tilkynningar borist á einu ári frá því að samræmd skráning hófst fyrir um tuttugu árum, eða árið 1999. Langflest brotanna eiga sér stað aðfaranótt laugardags og sunnudags, segir í tilkynningu frá lögreglunni. 

Skráðum umferðarlagabrotum fjölgaði töluvert í fyrra miðað við fyrri ár og voru 45.000. Langflest þeirra voru vegna hraðakstursbrota, eða tæp 35.000. Líkt og í tilfelli ofbeldisbrotanna hafa ekki verið skráð jafn mörg umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu á einu ári frá því að samræmdar skráningar hófust.

Þá var fjöldi fíkniefnabrota svipaður milli ára. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslan lögðu hald á rúm 70 kíló af kannabisefnum í fyrra, um 6 kíló af kókaíni og um 3,5 kíló af amfetamíni í fyrra. Einnig var lagt hald á um átta þúsund stykki af ecstasy töflum. Haldlagningum á ecstasy töflum fjölgaði hvað mest á milli ára. 

Heilt yfir voru þó litlar breytingar á milli ára í stærstu brotaflokkunum, segir í tilkynningu frá lögreglunni. Þar segir að markmiðið með skýrslunni sé meðal annars að halda árlega skrá yfir afbrot í umdæminu og mæla þróun í afbrotatíðni milli ára.