Tilgangsleysi, loftslag eða sjálfsmyndarleit

Mynd: RÚV / RÚV

Tilgangsleysi, loftslag eða sjálfsmyndarleit

10.05.2019 - 15:04
Um þessar mundir standa yfir sýningar á lokaverkefnum nemenda í Listaháskóla Íslands. Adolf Smári Unnarsson frumsýnir verk sitt, Kæru vinir, í Tjarnarbíó föstudaginn 10. maí en undirbúningur hefur staðið yfir þó nokkuð lengi.

Adolf segir skiptar skoðanir vera um hvað verkið fjalli í raun og veru um, sumir nefndu tilgangsleysi, loftslagsbreytingar „Mér finnst þetta kannski vera um sjálfsmynd og hvað gerist þegar allt sem þú trúir á og öll þín gildi, eru tekin frá þér. Svona augnablikið þegar þú þarft að finna þig upp á nýtt.“ 

Undirbúningur fyrir verkið hófst í febrúar þegar þar sem unnið var með tuttugu og fimm einræður sem urðu eins konar beinagrind fyrir verkið. Svo fékk hann leikara og tónlistarmann til liðs við sig, handritið var lagt til hliðar og unnið með spuna og opnanir. „Við í rauninni suðum nýtt verk upp úr öðru.“ Leikarar í verkinu eru Þórey Birgisdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Máni Arnarson, Kjartan Darri Kristjánsson, Jökull Smári Jakobsson og Hjalti Rúnar Jónsson en tónlist er í höndum Friðriks Margrétar Guðmundssonar.

Adolf segir námið leggja mikil upp úr því að hver og einn nemandi sé að þróa sína eigin rödd og því eru lokaverkefnin eins mismunandi og þau eru mörg. Eitt gerist í Laugardagslaug, annað á rúntinum og enn annað fjallar um konu sem reynir að stöðva hryðjuverkaárás í Moskvu. Nánari upplýsingar um sýningarnar er að finna á tix.is og á Facebook

Horfðu á viðtalið við Adolf Smára í spilaranum hér fyrir ofan.