Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tilfinningin sem situr eftir er aðalatriðið

Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir / Arnhildur Hálfdánardóttir

Tilfinningin sem situr eftir er aðalatriðið

21.08.2019 - 16:42

Höfundar

Í setustofu á deild L4, lokaðri endurhæfingardeildar Landakotsspítala fyrir sjúklinga með heilabilun, situr fólk í hring og syngur undir stjórn Jónu Þórsdóttur, músíkþerapista. Á deildinni eru fimmtán sjúklingar sem þurfa mikla aðstoð. Öll glíma þau við atferlisraskanir af völdum heilabilunarsjúkdóma eða heilablæðingar; má þar nefna verkstol, málstol, ranghugmyndir og ofskynjanir. Sjúklingahópurinn er breiður, þarna er eldra fólk en líka fólk um fimmtugt.

Tónlistarstundirnar hafa slegið í gegn á deildinni og ný slökunarmeðferð sem boðið er upp á, Namaste-care, hefur sömuleiðis gefið góða raun. Í haust stendur til að rannsaka áhrif tónlistarmeðferðarinnar. Starfsfólk telur hana hafa aukið vellíðan sjúklinga og minnkað þörf á lyfjagjöf. Stjórnendur deildarinnar, Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri, og Anna Herdís Pálsdóttir, aðstoðardeildarstjóri, komu þessum nýjungum á laggirnar. 

Þeir sem vilja syngja koma aftur og aftur

Anna Herdís kynntist músíkþerapíunni þegar hún vann á heilabilunardeild á hjúkrunarheimili í Noregi, þegar heim til Íslands var komið kynntist hún Jónu Þórsdóttur, músíkþerapista, í úkúlele-hóp sem læknar á Landakotsspítala stofnuðu. Þær ræddu saman og Anna talaði í framhaldinu við sinn yfirmann. „Henni leist auðvitað rosa vel á að fá músíkmeðferð hér á deildina. Boltinn byrjaði svo að rúlla í október í fyrra. þá fengum við þetta í gegn og erum mjög stoltar af þessu. Jóna kemur til okkar tvisvar í viku á þriðjudögum og föstudögum.  Þetta er ekkert fyrir alla en þeir sem eru með koma aftur og aftur.“

Lavander-lyktin föst í veggjunum

Þóra fékk innblástur eftir að hafa setið fyrirlestur hjá kanadískum félagsráðgjafa sem varð upphafsmaður að Namaste-meðferðinni. „Eftir að hafa fengið styrki frá góðu fólki gátum við hafið þetta fyrir tveimur árum síðan og erum með Namaste care alla virka daga milli eitt og tvö.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Anna Herdís og Þóra.

Namaste-meðferðin fer fram í sérútbúnu herbergi, þar eru fimm hægindastólar og einhvers konar nuddolíulykt í loftinu. „Það eru þá fimm sem geta verið í slökuninni í einu og af fimmtán manna hóp er það einn þriðji. Þarna dimmerum við ljósin og það er kveikt á ilmolíulampa með lavander-ilm sem er lyktin sem þú fannst. Hún er eiginlega föst í veggjunum núna sem er bara gott. Fólki er komið vel fyrir í hægindastólunum, við erum með skjá þarna inni, spilum slökunartónlist og myndbönd, bara af Youtube og síðan fær fólk handa- og fótanudd.“ 

Oft eina hvíldin

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Namaste-herbergið.

Sumt fólk með heilabilun á erfitt með að finna eirð í sér, er alltaf að ráfa um. Þóra segir Namaste-stundina oft einu hvíldina sem það fær yfir daginn, jafnvel eftir að hafa sofið slitrótt. Markmiðið er að láta fólki líða vel og auka nánd og traust milli sjúklinga og starfsmanna. „VIð höfum verið með einstaklinga sem hafa verið með mjög erfið atferlisvandamál sem hafa fengist til að koma inn í slökunarmeðferðina og við það að starfsmaðurinn er að gefa nudd man ég eftir einum sem sagði við þann sem var að nudda. Þú ert svo góð við mig og ég er svo vondur við þig. Það runnu tár hjá þessum fullorðna manni sem var með svo mikið stolt. Þessi samskipti voru rosalega gefandi og sköpuðu traust þeirra á milli.“ 

Anna segir þetta líka gott fyrir starfsfólkið. „Þetta er líka slökun fyrir okkur að fá að fara inn í Namaste-meðferð með sjúklingunum því þetta getur oft verið erfið hegðun og atferli.“ 

Þóra vonar að vellíðanin fylgi fólki svo út í daginn, þrátt fyrir að það gleymi því kannski að það hafi verið í slökunarmeðferð. 

Kúnst að finna lög

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Eitt sígilt.

Í músíkþerapíunni eru sungin ýmis lög en líka gerðar æfingar. „teygjum hendur hátt í loft og setjum hendur niður,“ sönglar Jóna og hópurinn fylgir. Svo er klappað og trallað. Stuðið eykst eftir því sem á líður. Þátttakendur fá þá að grípa í trommur og hristur. Þegar Jóna syngur Fyrsta kossinn með Hljómum taka margir hraustlega undir og maður sem situr afsíðis, biður um að fá hristu til að geta tekið þátt. Þarna er fólk á ólíkum aldri og ekki sjálfgefið að allir vilji syngja um Ljúfu Önnu eða Bjössa kvennagull. Það er því ákveðin kúnst að finna réttu lögin. 

Hættir að tjá sig en sungu samt með

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Jóna leiðir hópinn.

Anna og Þóra segja viðbrögð fólks við tónlistinni oft sterk. „Ég man allavega eftir tveimur einstaklingum sem voru eiginlega alveg hættir að tjá sig og langt komnir í sínum sjúkdómi. Svo var músíkmeðferð á deildinni og þá fóru þeir að syngja með af fullum krafti og kunnu alla textana,“ segir Anna. 

Opnar einhverjar minnisstöðvar í heilanum

Í heimildamyndum hefur verið fjallað um mátt tónlistarinnar, þau sterku viðbrögð sem tónlist sem sjúklingurinn hefur hlustað mest á í gegnum tíðina getur vakið.  „Við höfum heyrt af þessu og höfum verið að prófa okkur áfram með því að spyrja aðstandendur. Við höfum tekið fram Ipad sem við eigum hér á deildinni og spilað lög af Youtube og það er eins og það opni fyrir einhverjar minnisstöðvar í heilanum. Það renna tár, textinn kemur fram hjá viðkomandi og minningarbrot koma upp á yfirborðið. Það er alveg ótrúlega dásamlegt að þetta skuli virka svona,“ segir Þóra en upplifir fólk áfram góðar tilfinningar þegar þessum stundum lýkur eða líður því illa þegar tónlistin þagnar? „Nei og einmitt það sem mér finnst vera lykilatriðið í þessu öllu er að við erum að reyna að fá fólk til að upplifa gleði, vellíðan og góðar minningar og það sem mestu skiptir er að það sitji eftir. Eins og maður upplifir sjálfur, það er einhver tilhlökkun eða eitthvað sem maður getur ekki alveg fest hönd á en það veitir manni vellíðan,“ segir Þóra og Anna Herdís tekur undir. „Rannsóknir sýna að  það er einmitt þetta tilfinningaminni sem situr oft eftir þannig að fólk hefur gleði- eða sorgartilfinningu en veit ekki alveg hvað það var sem triggeraði það. Við erum að leitast eftir því að fólk fari brosandi inn í daginn.“ 

Rífandi stemmning í Tom jones partýi

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Stundum er gripið í trommur.

Gleðin hefur smitað út frá sér, presturinn syngur að sögn þeirra Önnu og Þóru oftar sálma með sjúklingum, starfsfólk sem vinnur á kvöldin og um helgar tekur sporið oftar og eina helgina í sumar var haldið Tom jones partý þar sem var rífandi stemmning. 

Vona að rannsóknin auki veg tónlistarmeðferðar

Í haust stendur til að rannsaka áhrif tónlistarmeðferðarstundanna í samvinnu við meistaranema í hjúkrun. „Það verður spennandi að sjá niðurstöðurnar því upplifun okkar er sú að lyfjagjöf hafi minnkað og gott að hafa músíkmeðferðina svona rétt fyrir helgina. Stelpurnar sem vinna um helgar segja okkur að það sé oft minni lyfjagjöf.“ 

Slökunarmeðferðin er ekki bara í boði á Landkoti. Nokkur hjúkrunarheimili hafa tekið hana upp. Þær Anna og Þóra segja tónlistarmeðferðina síður nýtta á hjúkrunarheimilum og öðrum stofnunum hér á landi en vona að niðurstöður rannsóknarinnar auki veg hennar og virðingu. Þá segja þær mikilvægt að meðferðin og menntun músíkþerapista verði formlega viðurkennd hér. 

Meðferð þarf að vera viðvarandi

Fjallað er stuttlega um bæði tónlistarmeðferðina og Namaste-meðferðina í drögum að stefnu heilbrigðisráðherra í málefnum fólks með heilabilun. Drögin voru birt í júní. Þar segir meðal annars að margar rannsóknir hafi sýnt að tónlistarmeðferð dragi úr óróleika og auki vellíðan. Vitnað er í íslenska rannsókn sem bar saman tvo hópa, annar tók þátt í tónlistarmeðferð hinn ekki. Óróleiki minnkaði hjá hópnum sem tók þátt í meðferðinni en fjórum vikum eftir að meðferð lauk var enginn munur. „Það segir okkur að meðferð af þessu tagi verður að vera viðvarandi,“ segir í stefnudrögunum. Þar segir einnig að meðferðin sé án aukaverkana en það sama megi ekki segja um lyf sem oft eru notuð við óróleika.  

Í drögunum er lagt til að samsetning starfsmanna á hjúkrunarheimilum og í dagþjálfunum verði fjölbreyttari, þangað verði fengið til starfa fólk sem geti komið beint að meðferð. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Setustofan á deild L4.

Tengdar fréttir

Innlent

Lífsstíll hefur áhrif á tíðni heilabilunar

Innlent

Heilabilun eykst næstu áratugi

Heilbrigðismál

Gefa einföld ráð til að hindra heilabilun

Innlent

Fleiri greinast ungir með heilabilun