Tilboð um vindmyllur í Færeyjum samþykkt

03.10.2019 - 14:51
Orka, færeyska raforkustofnunin, samþykkti í dag tilboð dótturfélags Skeljungs í Færeyjum, P/F Magn, um uppbyggingu og rekstur vindmylla á landsvæði sem kallast Flatnahagi í Færeyjum. Dótturfyrirtæki Skeljungs lagði tilboðið inn fyrir hönd óstofnaðs félags, að því er fram kemur í tilkynningu Skeljungs til Kauphallar Íslands.

Tilboðið var gert með nokkrum fyrirvörum, meðal annars um samþykki stjórnar og fjármögnun. Ef af verður, þá verður fjárfestingin í samstarfi við færeysku lífeyrissjóðina Lív 2 og Lív 3 sem myndu eiga 60 prósent í óstofnaða félaginu. Magn myndi eiga 40 prósent og verður fjárfesting þess að hámarki 300 milljónir króna. Áætlað er að verkefnið allt kosti 2,2 milljarða króna.  

Haft er eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs, í tilkynningunni, að með þessu sé Magn að taka annað mikilvægt skref inn í endurnýjanlega orkugeirann í Færeyjum. Árið 2018 hafi fyrirtækið keypt félagið Demich, sem sérhæfir sig í umhverfisvænni húshitun. „Það hentar okkur vel að vera í minnihluta með öflugum samstarfsaðila í verkefni sem þessu, þar sem það takmarkar fjárfestinguna á þessu stigi en opnar á mikil tækifæri, opnist orkumarkaðir í Færeyjum frekar."

Í leyfinu felst réttur fyrir óstofnaða félagið til að framleiða 64 gígavattstundir af orku árlega. Núverandi raforkulög í Færeyjum heimila ekki einkaaðilum að selja rafmagn beint til neytenda og því verður raforkan sem áætlað er að félagið framleiði seld til opinbera raforkufélagsins í Færeyjum, SEV, á föstu verði. Í tilkynningu frá Skeljungi segir að verði af breytingum á færeysku orkulöggjöfinni gefist Magni tækifæri til að ganga inn í kaupin á orkunni á sama verði og SEV.

 

 

 

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi