Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tilboð í eyjuna Vigur dregið til baka

24.07.2019 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Davíð Ólafsson, fasteignasali hjá fasteignasölunni Borg, staðfestir að tilboð í eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi hafi verið dregið til baka í gær. Það sé vegna reglna hér á landi um sóttkví og einangrun gæludýra við komu til landsins. Erlendur aðili hafi verið að baki tilboðsins. Davíð segir að það vanti ekki áhuga á eyjunni. Nú sé opið fyrir tilboð á ný.

Miðað sé við að lágmarkstilboð sé 330 milljónir. Davíð segir þó að jörð kosti það sem fáist fyrir hana. Hann segir 330 milljónir ekki óraunhæft. Það vanti ekki áhugann. 

Flestir sem sýni áhuga erlendis frá

Hann segir að flestir sem hafi sýnt sölunni áhuga séu erlendis frá. Þá hafi flestir ferðaþjónustuáform, en það sé þó alla vega. Hann segir kanadísk og amerísk fyrirtæki hafa sýnt sölunni mikinn áhuga en reglur um takmörkun þyrluflugs vegna friðlýsingar þýði að ekki sé hægt að lenda á svæðinu allt árið. Fólk vilji ekki þurfa að sigla á milli á veturna. 

Eyjan hefur verið til sölu í rúmt ár. Davíð segir að svona söluferli geti tekið langan tíma. Auk þess séu bankar að lána minna til ferðaþjónustu um þessar mundir en áður. 

Vilja að ríkið kaupi eyjuna

Samkvæmt frétt Bæjarins besta tók bæjarráð Ísafjarðarbæjar málið fyrir á fundi fyrr í vikunni. Þar hafi komið fram að ráðið vilji að ríkið kaupi eyjuna. Ekki náðist í Ísafjarðarbæ við gerð fréttar. Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, segir að hún viti ekki til þess að unnið sé að því að gera tilboð í eyjuna af hálfu ríkisins.

Perlan í Djúpinu

Vigur er ein þriggja eyja í Ísafjarðardjúpi og hefur verið kölluð Perlan í Djúpinu. Lengi vel var búskapur í eynni en undanfarin ár hefur ferðaþjónusta tekið við. Sama fjölskyldan hefur byggt Vigur í meira en 130 ár. Þeim finnst nú kominn tími til þess að breyta til, sagði Salvar Baldursson, bóndi í Vigur í samtali við fréttastofu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.